146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Þetta er mál sem hefur verið mælt fyrir áður og var til meðferðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili en hlaut ekki framgang. Ég átti í orðaskiptum við þáverandi hæstv. ráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur um þetta mál þannig að ég ætla ekki að staldra neitt sérstaklega við efnisþætti málsins. Ég tel það afar gott og tímabært. Ég held að við eigum núna að einhenda okkur í að klára það. Ég held að ekkert komi í veg fyrir það. Við hófum þessa vegferð með því að gera gögnin gjaldfrjáls í janúar 2013 þannig að við erum núna í þeirri vegferð áfram sem þá var hafin og snýst um að gögn sem eru búin til fyrir almannafé í þágu almennings eigi að vera opin þeim sama almenning, enda hefur komið í ljós að þetta hefur leitt til gríðarlegrar þróunar og nýsköpunar á þessu sviði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mat hennar á því hversu líklegt það er að málið nái að klárast. Þáverandi hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi ráðherra í ríkisstjórninni, setti sig upp á móti málinu í 1. umr. og taldi að þetta gæti verið óráðlegt vegna þess að saumað væri að einkaaðilum, sem ég er ósammála að það geri. Nú er það svo að málið er hér fram komið og þá hefur það væntanlega farið í gegnum ríkisstjórn þar sem hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson situr einmitt. Ég vil forvitnast um það hvort það hafi verið einhverjir hnökrar á framgangi málsins út úr ríkisstjórn og svo síðar út úr þingflokkum stjórnarflokkanna. Ef svo er ekki þá held ég að þetta sé eitt af þeim málum sem við eigum að klára með stæl.