148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stjórnsýsla ferðamála.

[15:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ef einhver efast um það finn ég til mikillar ábyrgðar sem ráðherra ferðamála. Ég átta mig á því að við erum hér með stærstu atvinnugrein landsins sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Með samstilltu átaki fólksins í landinu, einstaklingsframtakinu, hefur þetta gengið vel. Stjórnvöld hafa komið fram með mjög mörg verkefni, sveitarstjórnarstigið sömuleiðis.

Það er alveg rétt að þessi grein er í mikilli mótun. Það eru að einhverju leyti blikur á lofti en þegar kemur að verðlagningu erum við ekki samkeppnishæf. Þegar kemur hins vegar að öðrum þáttum erum við það svo sannarlega. Við þurfum að byggja á því.

Við erum með breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, við erum með flugþróunarsjóð og Hæfnisetur þar sem við höfum forgangsraðað til að bæta menntun þeirra sem starfa í greininni sem á m.a. að auka gæði. Við erum með Vegvísi og landsáætlun um uppbyggingu innviða sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Við erum með þá rannsóknareiningu sem ég nefndi áðan, svokallaða litlu Hafró, sem ég held að sé algjört grundvallaratriði í þessari atvinnugrein, til að við vitum almennilega um hvað við erum að tala á hverjum tíma (Forseti hringir.) og getum tekið ákvarðanir út frá því. Við erum síðan með stóra þolmarkaskýrslu sem verður líka algjör grunnur að langtímastefnumótun, hvert við ætlum að fara með atvinnugreinina og hvar við getum gert vel.