152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú erfitt að bregðast við þegar svona ítrekað er farið með rangt mál. Í fyrsta lagi þarf hv. þingmaður ekki að tala um að ég sé að skálda einhverja sögu hér þegar við erum að horfa aftur í tímann. Þetta eru bara rauntölur þegar við erum að gera upp fortíðina og þá er hægt að skoða hvernig kaupmáttur hefur þróast og þetta eru mældar stærðir. Það er líka hægt að skoða þetta á tekjusögunni.is. Það er bara óumdeilt að kaupmáttur bóta hefur vaxið á undanförnum árum og hann hefur vaxið verulega og fram undir síðustu ár fór hann vaxandi langt umfram kaupmátt launþega.

Varðandi endurhæfingarlífeyririnn er það einhver besta fjárfesting sem við getum gert vegna þess að einmitt með því að leggja áherslu á endurhæfingarlífeyri þá hefur okkur tekist að stöðva nýgengi örorku í landinu í fyrsta skipti í mjög mörg ár og mjög ánægjuleg þróun átti sér stað hvað það varðar í fyrra og við vonumst til að hún haldi áfram í ár. (Forseti hringir.) Og það er ekki boðlegt að bera það sem við ætlum að setja í endurhæfingarlífeyri saman við breytingar á Stjórnarráði eða eitthvað slíkt. (Forseti hringir.) Við skulum taka umræðuna um það hvað fer til málefna öryrkja í heildina. Þá dregst upp dálítið önnur mynd.