152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:01]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þannig að það sé algjörlega á hreinu þá var það sem ég sagði áðan það að ég tel að við þurfum að styðja þessar heilbrigðisstofnanir, hvort sem þær eru á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Þarf aukið fjármagn í það? Ég held að það sé öllum ljóst að það þarf aukið fjármagn í það. Ég held að það sé ekki nokkur maður hér inni í þessum sal sem efast um að það þurfi meira fjármagn og að hægt væri að nýta meira fjármagn í heilbrigðiskerfinu. Spurningin er hins vegar hvar á að taka það. Um það snýst það. Hvar ætlum við að fá það? Af hverju ætlum við að skera eða ætlum við að auka skuldsetningu ríkissjóðs? Það er verkefnið væntanlega. En ég held að við séum algerlega sammála því, ég og þingmaðurinn, að við berum báðir hag heilbrigðiskerfisins fyrir brjósti í þessari umræðu.