152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það var akkúrat það sem ég var að segja. Við vitum það og við höfum rætt það. Það er kannski partur af því sem við þurfum að taka til endurskoðunar þegar kemur að lögum um opinber fjármál, það eru þessir safnliðir sem risastórar fjárhæðir eru inni á. Við myndum kannski gjarnan vilja hafa það gagnsærra hvernig þeim er varið og hvort þeir eigi yfir höfuð að vera til eða ekki. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða, hið gamla skúffufé ráðherra, eins og það var kallað, því að það er jú að einhverju leyti það sem það er, þessir safnliðir.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að við þurfum áfram að fjármagna heilbrigðisþjónustuna okkar mjög vel. Ég var bara að vitna í það sem kom fram á fundi sem við sóttum öll á spítalanum, þar sem þessi orð voru viðhöfð. Það er líka þannig, eins og hefur komið fram, að það er verið að taka í notkun þetta DRG-kerfi sem á að breyta þjónustunni og væntanlega bæta hana. Það er mjög margt undir sem við þurfum að skoða, fjarheilbrigðistækni og annað slíkt sem sjúkrahúsið sjálft hefur sagt, og sjúkrahúsin svo að það sé sagt, að það geti gert mun betur í. (Forseti hringir.) En við þurfum sannarlega að skoða þetta og nú er það fjárlaganefndar en ekki ríkisstjórnarinnar.