152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ef þetta er hlutverk margra og þar á meðal stjórnvalda þá skil ég ekki af hverju það er engin stefna lögð á borðið frá stjórnvöldum: Þetta ætlum við leggja af mörkum til að leysa þetta vandamál. Vandinn hérna er dálítið heimatilbúinn. Það að fara að blása út eignamarkaðinn eins og hann leggur sig hjálpar fólki sem á húsnæði í raun og veru ekkert. Ef það ætlar að skipta um húsnæði þá er það að selja húsnæði fyrir annað húsnæði sem er dýrara. Jú, vissulega hækkaði þeirra húsnæði þannig að það hefur enn þá efni á þeim skiptum. Þetta eru húsnæðiskrónur fyrir húsnæðiskrónur, hvort sem þær eru hærri í krónugildi, svona mjólkurkrónugildi, núna en þær voru fyrir tveimur árum síðan. Fólk þarf að hafa þak yfir höfuðið þegar allt kemur til alls. Þannig að staða heimilanna er í rauninni ekkert nema bara svona hagstjórnarlegt bókhald þegar upp er staðið. Niðurstaðan fyrir alla er aukin verðbólga. Vandi þeirra sem núna þurfa að komast inn á markaðinn er þeim mun meiri. Þröskuldurinn er orðinn þeim mun hærri.

Hitt sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er hvað honum finnst um að hafa tapað 30 milljörðum í frumútboði Íslandsbanka. Þetta eru 30 milljarðar sem ríkið varð þarna af og hefði getað nýtt til alla vega skuldalækkunar, ef ekki til ýmissa annarra verkefna. Það eru alveg hreinar og klárar línur að almennar væntingar til frumútboða eru að verð hækki um 5%, kannski 10% í mesta lagi. En alla vega 5%. Raunin varð 60% hækkun sem segir ekkert annað en að það var gríðarlegt vanmat sem hlýtur að skrifast á stjórnvöld af því að það var varað við því.