152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir svarið, það er mikilvægt atriði sem hann nefnir hér um samneysluna. Vert er að benda á að það skiptir máli út frá hvaða sjónarhorni við horfum þar sem við höfum verið að beita ríkissjóði af miklum krafti. Nú eru hinar sértæku stuðningsaðgerðir vegna faraldursins að renna sitt skeið þannig að sannanlega er að draga úr stuðningi hins opinbera við eftirspurn í hagkerfinu. Eftir þessa miklu hækkun verður samneysla hins opinbera á tímabili fjármálaáætlunar mjög vel yfir sögulegu meðaltali, (Gripið fram í.) eða sem nemur 26% af landsframleiðslu. Það er ekki sama og aukningin, hv. þingmaður sem kallar hér, vegna þess að vissulega eykst hún minna í sögulegu samhengi á tímabilinu en hún hefur gert að undanförnu en það má setja í það samhengi að hún er vel yfir sögulegu meðaltali, m.a. vegna þeirra aðgerða sem gripið var til í heimsfaraldri. Vissulega er það rétt að við erum á þessum tímapunkti að einhverju leyti að vinna gegn spennu í hagkerfinu.

Hv. þingmaður nefnir húsnæðismálin og ég get alveg fullvissað hann um að hugmyndum hæstv. innviðaráðherra hefur ekki verið hafnað við ríkisstjórnarborðið. Þær hugmyndir sem tengjast húsnæðismálunum eru í vinnslu. Sérstakur hópur er starfandi, þar sem m.a. sitja aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og stjórnvalda, og ég vonast til að við fáum að sjá framan í þær hugmyndir strax eftir páska. Vonandi getum við rætt þær betur hér á þinginu og ég vona að þær að verði grundvöllur að því að snúa vörn í sókn. Þó að við höfum verið að bæta við stofnframlög, þó að hlutdeildarlán hafi verið kynnt til sögunnar, þá held ég að við séum öll sammála um það í þessum sal að við þurfum að gera betur í húsnæðismálum. Við þurfum að tryggja fleirum þak yfir höfuðið. Hugmyndir innviðaráðherra eru því í fullu gildi. Það getur orðið mjög mikilvægt mál við komandi kjarasamninga að gera betur í húsnæðismálum og nálgast þau með þessum félagslega hætti.