152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:33]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ný mannréttindastofnun verði sett á laggirnar. Minnst er á hana í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027, en þar segir að forsætisráðuneytið stefni að því að koma á laggirnar innlendri mannréttindastofnun sem uppfylli hin svokölluðu Parísarviðmið. Tilvist mannréttindastofnunar sem þessarar er nauðsynleg svo að Ísland geti uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og er forsenda þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. En í stjórnarsáttmálanum kemur jafnframt fram að lögfesta eigi umræddan sáttmála. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda. Þá á almenningur að geta leitað til stofnunarinnar og hún skal gera könnun á einstaka málum og aðstoða eftir atvikum. Kveða þarf á um hlutverk stofnunarinnar í almennum lögum eða stjórnskipunarlögum og hún skal hafa bæði fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði. Samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins var starfshópur settur á laggirnar sem hefur það hlutverk að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun. Þá má sjá í samráðsgátt stjórnvalda að vinna við grænbók um mannréttindi er að hefjast.

Því langaði mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað líði vinnu við stofnun mannréttindastofnunar. Hvernig miðar vinnu starfshópsins og hvenær er áætlað að hann ljúki störfum? Hvenær er áætlað að grænbók um mannréttindi verði lögð fram? Og að lokum: Hvenær er áætlað að leggja fram frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun og er tryggt nægt fjármagn til verkefnisins?