152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég geri hér í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 varðandi þau málefnasvið sem heyra undir utanríkisráðherra, málefnasvið 4, sem eru utanríkismál, og 35, alþjóðleg þróunarsamvinna. Framtíðarsýn utanríkisþjónustunnar er að hagsmunir lands og þjóðar séu tryggðir og Ísland leggi sitt af mörkum til að stuðla að velsæld hvarvetna. Á næstu árum mun ráðuneytið byggja starfsemi sína á áherslum um öflugt alþjóðastarf, græna framtíð og nýsköpun þar sem mannréttindi eru í forgrunni. Það er veruleg áskorun í því fólgin að takast á við hin fjölmörgu verkefni og áherslumál utanríkisþjónustunnar innan þess ramma sem henni er settur. Það hefur hins vegar tekist hingað til með því að sýna ráðdeild og sveigjanleika til að mæta óvæntum atburðum. EES-samstarfið er þýðingarmesti samstarfsvettvangur Íslands á sviði utanríkisviðskipta og áfram verður að hlúa að honum. Jafnframt er brýnt að sinna hagsmunagæslu við helstu vina- og samstarfsríki, t.d. Bandaríkin og Bretland, og tryggja áfram örugg og farsæl samskipti við þau. Þá þurfa tvíhliða samskipti að vera í stöðugri endurskoðun eins og fyrirhuguð opnun sendiráðs í Póllandi ber vitni um. Við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stríð í Úkraínu er alvarlegasta ógn við öryggi og frið í Evrópu frá lokum seinna stríðs. Þá er vaxandi árvekni og ráðstafana þörf vegna svonefndra fjölþáttaógna. Forsenda þess að hægt sé að mæta örum breytingum í umhverfi okkar er að tryggja viðbragðsflýti, m.a. til að bæta öruggar samskiptaleiðir við okkar nánustu samstarfsríki og styrkja varnaráætlanir Íslands. Á tímum heimsfaraldursins hefur öflug borgaraþjónusta sannað gildi sitt og við stöndum jafnframt frammi fyrir sókn íslensks efnahagslífs í kjölfar Covid-19. Viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins veitir útflutningsgreinum þjónustu með það að markmiði að skila auknum útflutningstekjum og skilvirkara markaðsstarfi erlendis. Gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 4 lækki úr 15,8 milljörðum árið 2023 í 13,4 milljarða árið 2027. Það skýrist að mestu leyti af því að Evrópusambandið hefur fyrir sitt leyti ekki lokið við nýja áætlun fyrir uppbyggingarsjóð EES og endurspeglar fjármálaáætlun því lækkandi framlög eftir því sem verkefnum á grundvelli núverandi áætlunar sjóðsins lýkur. Nemur samdrátturinn rúmum 2 milljörðum kr. milli áranna 2023–2024 en gera má ráð fyrir að hann gangi til baka að einhverju leyti þegar lögð verður fram ný áætlun um framlög aðildarríkjanna til sjóðsins. Almenn aðhaldskrafa nemur 550 millj. kr. á tímabilinu og verður hún útfærð í fjárlögum hvers árs. Niðurfelling framlaga til tímabundinna verkefna, formennsku Íslands í Evrópuráðinu og setu Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO, skýrir lækkun framlaga um liðlega 270 milljónir á tímabilinu. Á móti hækka framlög til ýmissa verkefna, svo sem vegna formennsku í norrænu ráðherranefndinni og reksturs fastanefnda gagnvart Evrópuráðinu í Strassborg. Einnig er gert ráð fyrir að framlög til öryggis- og varnarmála hækki á tímabilinu um 500 millj. kr. á ársgrundvelli til að mæta ýmsum kostnaði vegna varnartengdra verkefna, svo sem ýmissa verkefna á öryggissvæðinu í Keflavík, eftirstöðva vegna útboðs í tengslum við leigu ljósleiðara, nauðsynlegra viðhaldsframkvæmda til eflingar fjarskiptaþjónustu hér á landi, styrkingar öruggra samskipta milli Íslands og samstarfsþjóða, uppsetningar á öruggum fjarskiptarýmum, til að mæta tekjufalli í rekstri öryggissvæðisins í Helguvík og til eflingar netvarna og viðbragða við fjölþáttaógnum.

Á málefnasviði 35, alþjóðlegri þróunarsamvinnu, er búist við að hlutfall heildarframlaga til þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum haldist í 0,35% út gildistíma áætlunar. Framlög til málefnasviðsins hækka í samræmi við spá um vergar þjóðartekjur úr rúmlega 11,5 milljörðum á næsta ári í rúmlega 14,5 milljarða árið 2027, en það ræðst sömuleiðis, þ.e. heildarframlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, af þróunarsamvinnutengdum kostnaði sem er á hendi annarra ráðuneyta. Við erum að vinna eftir stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu til ársins 2023 og endurskoðum hana síðan. Ísland sinnir þróunarsamvinnu í gegnum tvíhliða samstarf, einstök ríki, svæðasamstarf o.s.frv. Sem fyrr erum við með áherslur á mannréttindi, jafnrétti og sjálfbæra þróun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á loftslagsmál og að hækkun á framlögum verði nýtt til að hlúa að öflugu samstarfi við helstu fjölþjóðastofnanir sem starfa að framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og ákvæða Parísarsamkomulagsins. — Það er ýmislegt hér sem ég hefði viljað fara yfir en kemst ekki í, en er líklega eitthvað sem spurt verður um.

Virðulegi forseti. Margar áskoranir steðja að heimsbyggðinni, sér í lagi í kjölfar heimsfaraldurs sem kom illa niður á fátækustu ríkjunum. Við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar til að vinna að bættri veröld með öflugum stuðningi við mannúðarmál. Má þar sérstaklega nefna lífsbjargandi aðstoð og stuðning til að bæta lífsafkomu fólks á flótta, svo sem frá Afganistan, Jemen og Úkraínu, og verður slíkur stuðningur áfram mjög mikilvægur þáttur í okkar starfi á komandi árum.