132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:22]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það má alveg taka undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, enda vorum við einu sinni samflokksmenn. Okkur greinir ekki alltaf mikið á.

Þegar ég sagði að oft væri talað illa um Byggðastofnun var ég ekki að vitna til orða hv. þingmanns, en margir aðrir gera það. Að sjálfsögðu tek ég undir að efla þurfi Byggðastofnun. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að Byggðastofnun ætti að vera með styrkveitingar því að styrkir, þótt litlir séu, skipta máli. Ég þekki það t.d. í gegnum atvinnusjóð kvenna að þeir litlu styrkir sem veittir hafa verið til atvinnumála kvenna hafa oft og tíðum skipt sköpum.

Eins er það þannig að þrátt fyrir mikið frelsi hjá bönkunum og að þeir láni víða vilja þeir ekki lána á alla staði á landinu. Þannig er það, þeir hafa ekki haft vilja til að lána til hinna veikari svæða og þess vegna þarf að vera einhver stofnun eins og Byggðastofnun sem getur sinnt því hlutverki.

Það eru mikil áform í samgöngumálum hjá þessari ríkisstjórn, og það er vel. Af því að áðan var kallað fram í og ég spurð hvort ég vildi ganga í Frjálslynda flokkinn þakka ég gott boð en segi nei, takk.