132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Þátttaka ráðherra í umræðu.

[20:16]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þegar klukkan er korter yfir átta og umræðu er að ljúka um þetta mál vil ég vekja athygli á því, í fyrsta lagi að hæstv. byggðamálaráðherra hefur setið hér í umræðunni í allan dag — ég ætla ekkert að þakka fyrir það vegna þess að að sjálfsögðu á að gera það, en vek samt athygli á því að það er gott. Það er ekki alltaf gert. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að minnast á það og vekja athygli á því að venjan er að ráðherrar sem eru að fylgja málum sínum úr hlaði, hafa tekið þátt í umræðu og hlustað á þingmenn og þingmenn hafa sett fram spurningar og athugasemdir og annað slíkt, komi hingað í restina og fari yfir þá umræðu sem hefur farið fram og svari kannski einhverjum þeirra spurninga sem hafa komið fram o.s.frv.

Þetta kýs hæstv. byggðamálaráðherra að gera ekki hér í dag og í kvöld. Það er auðvitað mjög athyglisvert. Ég hef tekið eftir að það virðist sem ráðherra sé frekar illa við að menn ræði þessi mál. Ég hef bent á það sem mér finnst vanta í umræðuna og aðrir þingmenn hafa flutt mjög góðar ræður og bent á erfiðleikasvæði á landinu sem búa við stöðuga fólksfækkun og annað slíkt og komið með ágætistillögur og bent t.d. á svæðisbundnar byggðaaðgerðir o.s.frv.

Þetta hefur allt verið nefnt og þegar ég horfi mér á hægri hönd dettur mér í hug að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði t.d. mjög vel að umtalsefni Vestfirði og erfiðleika þar, þar fækkar fólki sífellt.

Þetta verð ég að gera hér undir þessum dagskrárlið, vekja athygli á því að hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til að fara hér í ræðustól Alþingis að lokinni umræðu og fara yfir umræðuna sem farið hefur fram í dag. Umræðan hefur um margt verið mjög merkileg og ánægjuleg þótt hún hafi stundum verið hvöss, eins og stundum gerist hér. Menn eru ekki alltaf sammála um öll atriði en ég vil vekja athygli á þessu, virðulegi forseti.