136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:09]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er af nógu að taka og það er hægt að gagnrýna nánast allar þær gjörðir sem gerðar hafa verið og er verið að gera þessa dagana og allt sem ríkisstjórnin gerir gerir hún með handarbökunum, það er ekki hægt að segja að hún geri nánast neitt af viti. Því er nú verr, það er bara staðreynd málsins.

Nýr hátekjuskattur á öryrkja, greiðslur skerðast um 14–16 þús. kr. á mánuði frá því sem fyrirhugað var. Þetta blasir við öryrkjum. Skerða hækkun til allra málaflokka um 10%. Síðan eiga lágmarksbætur að verða ríflega 163 þús. kr. í stað 178 þús. kr. Það er auðvitað sorglegt hvernig við ætlum að koma við það fólk sem verst er statt í samfélaginu.

Það má segja að verið sé að setja nokkurs konar hátekjuskatt á greiðslur lífeyrissjóða til elli- og örorkulífeyrisþega. Það á sem sagt að hirða þann lífeyri sem launafólk hefur safnað saman á löngum starfsferli. Þetta er það sem ríkisstjórnin er að gera. Það sem syrgir mig mest er að hæstv. félagsmálaráðherra skuli taka þátt í þessu eða réttara sagt þurfi að beygja sig undir þessi mál eða þessa gjörninga ríkisstjórnarinnar. Það er ekki verið að bæta kjör þeirra verst settu eins og haldið hefur verið fram, það er langur vegur frá.

Síðan erum við splitta Tryggingastofnun ríkisins upp í tvær stofnanir, og af hverju og til hvers þegar það kostar 250 millj. kr. að gera það? Hvað erum við að gera? Hefði ekki verið nær að fresta þessu um einhvern tíma, jafnvel eitt, tvö ár til að byrja með og halda áfram og spara okkur þessar 250 milljónir og nota þær fyrir öryrkja og aldraða? Það er margt skrýtið sem er í gangi þessa dagana.

Maður þarf kannski ekkert að vera hissa miðað við það sem er í gangi. Við erum að ráðast á búfjársamninga, það á að taka vísitölutryggingu á þeim úr sambandi. Síðan er verið að vinna í því að taka skuldir af sjávarútvegsfyrirtækjum, þ.e. að fella niður framvirka gjaldeyrissamninga af sjávarútveginum.

Það er ekki verið að fella neitt niður af íbúðalánum, það er ekki verið að fella niður skuldir hjá Íbúðalánasjóði eða sem húsbyggjendur eða húseigendur hafa verið með af erlendum lánum í bankakerfinu. Þau lán hækka, það er ekki verið að skera af þeim. Það er heldur ekki verið að minnka ofurlaun bankamanna og æðstu embættismanna ríkisins. Það er jú verið að leggja til að laun þingmanna lækki og ráðherra og er það sjálfgefið að það sé gert, en auðvitað þarf að gera það með eðlilegum hætti og þora að tala um þau mál í björtu en ekki vera að þræla þessu í gegnum þingið á síðustu stundu með þeim hætti til að fela þetta í jólatraffíkinni og koma í veg fyrir að fólk fylgist með og viti hvað við erum að gera hér. Við eigum að tala bæði um laun alþingismanna og ráðherra og eftirlaun alþingismanna og ráðherra í björtu og þora að tala um það hvernig á að standa að þessum hlutum en ekki að vera að gera þetta í skjóli myrkurs einhvern tíma þegar sem fæstir taka eftir því hvað er í gangi.

Ég neita því ekki að utanríkisþjónustan og utanríkisráðuneytið og allt sem er á vegum utanríkisráðuneytisins stingur heiftarlega í stúf þegar maður tekur eftir því að það er ætlað að utanríkisráðuneytið hafi 900 milljarða. Við erum að vandræðast með ýmis peningaframlög til öryrkja og aldraðra en við hikum ekki við að setja 1.200 millj. kr. í Varnarmálastofnun og setjum í þróunarmál og alþjóðlega hjálparstarfsemi fullt af peningum og annað í þeim dúr. Varnarmálastofnun á að fá einn milljarð, 1.082 þúsund millj. kr. Það er auðvitað sjónarmið en þetta er það sem við hefðum átt að spara.

Í sambandi við NATO, Atlantshafsbandalagið, af hverju erum við að setja 70 milljarða í það? Af hverju segjum við einfaldlega ekki þeim samningi bara upp? Síðan fær alþjóðlega friðargæslusveit okkar 205 millj. kr. á næsta ári í fjárveitingu, og íslensk friðargæsla 326 millj. kr. Hvað er í gangi? Má ekki stoppa þetta og hætta þessu? Þetta eru hlutir sem manni sýnist alls ekki vera þörf á og nú nefni ég bara nokkrar tölur sem ég tók eftir og stungu mann, þetta gengur ekki. Síðan er talað um að skera niður framlög til ýmissa hjálparstofnana eins og Rauða krossins, Fjölskylduhjálpar Íslands og Mæðrastyrksnefndar (Gripið fram í.) og þá skilur maður hvorki upp né niður í málunum.

Við erum ekki að forgangsraða rétt. Ég sagði í ræðu fyrr í dag að við erum að skipta þessari köku sem við eigum illa og vitlaust og við þurfum að endurskoða það hvernig við skiptum henni. Það vantar mikið á fyrir svo utan það að við í Frjálslynda flokknum erum með tillögur um það að stækka kökuna. Við viljum bæta við veiðiheimildir, sérstaklega í þorski og þess vegna í síld og öðrum tegundum, og auka atvinnustarfsemi í landinu. Meira að segja hefur Hafrannsóknastofnun Íslands komist að þeirri niðurstöðu samkvæmt haustralli þeirra að það sé 70% hærri vísitala í þorski í ár en var fyrir einu ári en samt tala þeir gegn því. Nú er fiskur allt í einu orðinn veiðanlegri en hann hefur verið. Það er auðvitað ekki hægt að búa við svona að á meðan þjóðin lepur dauðann úr skel, að við skulum standa frammi fyrir því að það sé ekki hægt að bæta úr. Áfram er líka fluttur út óunninn fiskur sem gæti skapað hér a.m.k. tvö þúsund störf ef sá fiskur yrði tekinn til vinnslu innan lands.

Nú verðum við að horfa á hlutina öðruvísi en við höfum gert og endurskoða þau vinnubrögð sem við höfum og nú þegar við ætlum að fara að byggja upp nýtt Ísland þurfum við að gæta jafnræðis og hætta að brjóta mannréttindi á sjómönnum eins og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa gert í heilt ár. Þeir hafa ekki lyft upp litla putta til að stoppa þær hörmungar, ég tala nú ekki um að þeir hafa hvorki viljað breyta fiskveiðistjórnarkerfinu né bæta þeim mönnum sem urðu fyrir þessum mannréttindabrotum. Þeir hafa ekki lyft upp litla fingri til að gera það.

Það vill svo til að í sumar fór sjómaður í Sandgerði að róa án þess að hafa veiðiheimildir og hann hefur nú beðið í 19 vikur eftir því að verða ákærður fyrir brot sitt, að hafa farið á sjó kvótalaus en hann hefur ekki fengið ákæru enn þá. Það er eins og ég segi ýmislegt skrýtið í þessu, en hér er verið að tala um hvernig við ætlum að skipta okkar sameiginlegu köku. Í fyrsta lagi viljum við í Frjálslynda flokknum reyna að stækka hana, síðan viljum við reyna að skipta á sanngjarnan hátt, þar sem allir standa jafnir. Síðast en ekki síst þurfum við að taka tillit til ungs fólks sem er að koma inn á vinnumarkaðinn, koma úr skólum, með því að styðja við bakið á sprotafyrirtækjum og öðrum sem hugsanlega geta orðið okkur mikils virði í framtíðinni í (Forseti hringir.) ýmiss konar atvinnuuppbyggingu.