138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Jú, jú, þetta er kannski mergurinn málsins, það er þegar gert ráð fyrir því í áætlunum Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hér verði viðvarandi lágt raungengi í a.m.k. 10 ár, heilan áratug, sem þýðir að Ísland verður einfaldlega á mælikvarða Evrópu láglaunaframleiðsluríki. Það er allt annað umhverfi en við búum við í dag. Við verðum þá komin 20–30 ár aftur í tímann og það er einfaldlega á stefnuskránni. Það verður gengið hér á lífeyrisskuldbindingar landsmanna í framhaldinu með því að gefa landsmönnum kost á að innleysa þær. Þannig mun ríkissjóður ná 40% af öllum þeim lífeyrissjóðum sem til eru í landinu til að greiða m.a. niður þessar skuldir. Þetta eru einfaldlega þær leiðir sem verið er að fara, það er byrjað að stíga fyrstu skrefin og þau eru ekki heillavænleg. Því er þetta frumvarp hið versta mál.