141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Sú rammaáætlun sem við ætlum að samþykkja í dag frá hinu háa Alþingi er fyrst og fremst eitt merkilegasta verndarplagg í sögu þjóðar. Hér er verið að vernda margar glæsilegustu náttúruperlur jarðarinnar og óviðjafnanlega staði. Sá sem hér stendur hefði kosið margt öðruvísi í þessari rammaáætlun en hún er ekki óskalisti stöku þingmanna. Hér hefði mátt fara út í frekari vatnsaflsvirkjanir en hér hefði líka mátt vernda meira og nefni ég þar sérstaklega Eldvörpin, einhverja mestu og glæsilegustu náttúruperlu Reykjaness.

En þetta er ekki óskalisti stöku þingmanns hér inni, hér er miklu fremur verið að samþykkja einhverja glæsilegustu rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda sem nokkur þjóð hefur gert á síðustu árum.