143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni sem talaði á undan um að við þurfum að vanda til verka í þessu máli. Við þurfum að leita allra bestu upplýsinganna og setja upp líkön sem eru raunsönn þannig að við getum á endanum tekið upplýsta ákvörðun. Ég var samt ekki sammála hv. þingmanni, og mörgum þeim sem hafa talað á svipuðum nótum, af því að mér fannst hún fullneikvæð. Kannski er ástæðan fyrir því að menn hafa áhyggjur af því hversu hægt málið gengur sú að þegar málið og skýrslan voru kynnt í þinginu á haustdögum var ráðherrann líka býsna neikvæður, að mínu mati. Mér finnst það ekki gott og ég vona að upplýsing geti hjálpað okkur öllum við að koma okkur af einhverjum fyrir fram ákveðnum stað í málinu svo að við getum á endanum tekið þá ákvörðun sem kemur þjóðinni best.

Ég er til dæmis ekki sammála því að þarna sé að baki að við ætlum að fara að selja ódýrt rafmagn til Bretlands, alls ekki. Módelið er að hugsanlega reyna að vera á svokölluðum „spot“-markaði þar sem við fáum alltaf hæsta mögulega verð. Þetta verður ekki ódýrasta rafmagnið sem Evrópubúar munu kaupa, græna orkan. Við eigum hins vegar ekki ótakmarkað magn af henni. Það er enginn að segja að við séum í þessu verkefni eða séum að skoða það til að gera eitthvað fyrir einhverja aðra en okkur sjálf, þvert á móti. Menn sjá í því gríðarleg tækifæri fyrir Ísland og fyrir Íslendinga. Af hverju og hvaða tækifæri eru það? Ég verð fyrst að nefna að eitt tækifærið er að rjúfa einangrun raforkukerfisins. Við erum með einangrað raforkukerfi sem þýðir að við höfum töluvert af varaafli í kerfinu sem er ónýtt og við getum ekki komið í verð eins og staðan er í dag. Þarna væri möguleiki á því að koma varaorkunni í verð. Það hlýtur að vera einn kostur og ein ástæðan til að horfa með jákvæðum augum til þessarar athugunar.

Annað sem ég vil líka nefna er langþráður sveigjanleiki í orkufrekri eða orkufrekari uppbyggingu, í orkufrekari iðnaði, að við fáum langþráðan sveigjanleika. Það er þannig sem raforkustrengur getur náð því markmiði sem hv. þingmaður sem talaði á undan mér gerði að umtalsefni, varðandi að nýta orkuna til uppbyggingar á innlendri starfsemi.

Við höfum hingað til í raun og veru þurft að virkja, fara alltaf í nýjar virkjanir fyrir þá sem hafa áhuga á því að koma hingað með starfsemi sína. Það þýðir að við höfum oft misst af lestinni með því að vera ekki með afl til reiðu hér á landi, af því að strengur gengur í báðar áttir. Sá sveigjanleiki sem við höfum hingað til þurft gæti skapast. Ég ætla með engu að fullyrða um eitt né neitt hér en sá möguleiki að sveigjanleikinn skapaðist með því að við færum þessa leið gerir það að verkum að ég vil að við höldum áfram að skoða málið.

Við erum býsna langt komin. Ég held að við séum öll sammála um að við erum býsna langt komin með vatnsaflið okkar og líka jarðvarmann, sem er náttúrlega dyntóttur eins og við höfum svo sannarlega fengið að kynnast í gegnum tíðina og við nýtinguna á honum.

Þriðji kosturinn við málið sem ég vil nefna er að þetta gefur okkur færi á því að fara að nýta til dæmis vindorkuna, nýta aðra orkukosti sem hafa svokallaða toppa og eru óstöðugri en til að mynda vatnsaflið. Það þýðir að þá höfum við möguleika á því að selja orkuna sem hingað til hefur kannski þótt óstöðug fyrir lokað raforkukerfi en væri góð orka og vænleg orka inn í raforkukerfi sem er tengt stærri markaði. Það er ýmislegt í þessu sem mér finnst að við eigum að horfa á jákvæðum augum, m.a. út af þessu þrennu og líka hinni þjóðhagslegu hagkvæmni. Þetta gæti í ofanálag skilað miklum tekjum í þjóðarbúið. Því finnst mér það þess virði að fara í þann leiðangur að skoða málið ofan í kjölinn, án þess þó að ég sé búin að gera upp hug minn.

Síðan eru auðvitað gallar sem hafa komið upp og hafa verið ræddir og eru verðið til notenda innan lands, sem er eitthvað sem við eigum að skoða mjög vel. Ég er ekki tilbúin að fara í leiðangur sem endar síðan sem baggi á heimilum, en það er ekki víst að það verði þannig og þurfi að vera þannig þótt við gerum þetta. Við skulum skoða það. Ég er þeirrar skoðunar hvað varðar skýrsluna sem starfshópurinn skilaði hingað og ráðherra mælti fyrir á þinginu í haust og atvinnuveganefnd hefur fjallað um að tillögur nefndarinnar séu býsna skynsamlegar. Ég held að nefndin taki rétta stefnu með því að taka undir það að loka ekki á málið að svo stöddu heldur fela ráðuneytinu að halda áfram skoðun á þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar í skýrslunni. Ég held að ég skilji tillögur atvinnuveganefndar rétt þegar ég lýsi þeim svona. Þetta er sú leið sem ég hefði kosið að fara líka og ég vona að við eigum eftir að geta unnið málið þannig að við náum bærilegri sátt um það.

Saga umræðunnar um sæstreng á Íslandi dálítið skemmtileg. Hún er miklu lengri en maður gerir sér grein fyrir. Ef farið er inn á vef Landsvirkjunar má finna ýmsan fróðleik. Það voru fyrst settar fram hugmyndir fyrir 60 árum um að tengja Ísland og Skotland saman á þennan hátt en það var aldrei arðbært. Það er ekki fyrr en Landsnet og Landsvirkjun gera á því hagkvæma athugun árið 2009 eða 2010, ég man það ekki alveg, sem menn fara loksins að sjá eitthvað í þessu sem gæti skilað sér inn til þjóðarbúsins, að þetta gæti verið þjóðhagslega hagkvæmt, og þá fer skoðunin að fara fram af alvöru. Saga umræðunnar er því orðin býsna löng en eins og ég segi er jákvæða hliðin yngri, það er styttra síðan þetta varð möguleiki og þess vegna erum við kannski ekki lengra komin í umræðunni en raun ber vitni. Svo hafa auðvitað tækniþróun og markaðsaðstæður í Evrópu og annað breytt stöðu okkar. Einnig er það eftirspurnin eftir grænni orku vegna loftslagsmarkmiða og annað slíkt sem lönd eru að reyna að standa við. Umræðan er spennandi en hún hefur líka oft verið mjög undarleg og ekki síst í kjölfar hrunsins.

Ég man eftir því að þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu voru ýmsir sem komu þangað á minn fund og voru með mjög undarlegar hugmyndir um svona sæstreng. Það verður að segjast með sanni að mér leist ekkert á þær hugmyndir. Þær gengu meira og minna út á að raforka færi eina leið út. Einhver var með þá hugmynd, og hún komst í fjölmiðla, að menn greiddu Icesave með raforku frá Íslandi aðra leiðina í gegnum sæstreng. Umræðan hefur farið út um víðan völl en það skiptir máli að við lokum eyrunum fyrir því og horfum á málið út frá hörðum staðreyndum en ekki brjáluðum hugmyndum ævintýramanna úti í heimi.

Mér hefur þótt Landsvirkjun nálgast málið skynsamlega og ég held að málið sé í ágætisfarvegi í þeirra höndum en þá með þessari þverpólitísku aðkomu áfram, vegna þess að ég held að hún sé skynsamleg. Þetta er þannig mál að við eigum að vinna það þvert á pólitíkina svo það fari ekki á ofsahraða á einu kjörtímabili og sé svo stoppað af á því næsta, að við séum við nokkuð samstiga, eða reynum það a.m.k., í málinu í pólitíkinni.

Ég er bærilega sátt við að nefndin hafi náð saman um þá niðurstöðu að taka undir með ráðgjafarhópnum um að fara frekar þá leið að halda áfram með málið en að stoppa það.