146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú hefur komið fram að ráðherrann er ekki á landinu. Því langar mig að fá skýr svör við því hvort ráðherrann hafi verið einráður í þessari ákvörðun sinni. Mér finnst það algjörlega nauðsynlegt og ég krefst þess að þeir ráðherrar sem sitja í ríkisstjórn með hæstv. menntamálaráðherra svari fyrir þessa ákvörðun. Ég krefst þess að heyra frá þingflokksformönnum meiri hlutans um hvort þeir hafi verið meðvitaðir um þessa ákvörðun. Ef þeir hafa ekki hugrekki til að koma hér upp í ræðustól Alþingis og greina frá þá eru þeir meiri gungur en ég hefði talið.

Ég vil líka segja það að mér finnst alveg ótrúlegt hvernig þessi ríkisstjórn hagar sér. Mér finnst það ótrúlegt, forseti. Þessir ágætu þingmenn, sem síðar urðu ráðherrar, boðuðu allt önnur vinnubrögð. Ég hef ekki séð að þau vinnubrögð hafi skilað sér hér í störfum Alþingis eða hvernig ríkisstjórnin hagar sínum málum gagnvart þinginu. Þetta er hneisa. Þetta er skammarlegt. Ég vil bara segja: Þið sem eigið aðild að þessari ríkisstjórn, skammist ykkar!