154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[14:29]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er spennandi og við Íslendingar búum svo vel að hafa komið ár okkar ágætlega fyrir borð þegar kemur að upplýsingatækni og tungumálinu. Þó svo að alltaf megi gera miklu betur, eins og margir þreytast ekki á að hamra á, höfum við þó alla vega tryggt það að letrið okkar er tækt á lyklaborðum heimsins og getum örugglega miðlað af reynslu okkar í þeim efnum. Það er líka svo sannarlega rétt að reynsla þessara svæða er að mörgu leyti ólík því sem kannski er að finna sunnar í hinum norrænu ríkjum og allt frá fyrstu tíð því að það má segja að Norðurlönd hafi á miðöldum til að mynda skipst í þrjú megin efnahagsleg svæði. Það var auðvitað þetta svæði í Danmörku og þar og syðstu sveitum Svíþjóðar sem var líkara því sem gerðist í Þýskalandi með þorpum og mörkuðum o.s.frv. og síðan þetta sjálfsþurftarlandbúnaðarsvæði fyrir norðan sem var drjúgur partur Svíþjóðar og góður hluti Noregs líka. En síðan nyrst var alltaf svæðið sem treysti á annars konar auðlindir, auðlindir hafsins og veiði og annað slíkt, og þar er Ísland klárlega staðsett. Þar eru líka nyrstu héruð Noregs og hugsanlega að einhverju leyti Svíþjóðar og Finnlands líka. En þetta voru á miðöldum ríkustu svæðin, mun ríkari en þessi sjálfsþurftarlandbúnaðarsvæði þarna á milli, þannig að það var líka mjög sérstakt. — Ég bara þakka að lokum fyrir skemmtilega umræðu.