132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til að ræða draumfarir hæstv. forsætisráðherra en sem kunnugt er hefur hann eina ferðina enn dreymt aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þennan draum hefur hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, oft dreymt. Að þessu sinni gekk draumurinn út á að Ísland væri orðinn aðili að Evrópusambandinu árið 2015. Þetta þótti forsvarsmönnum Samfylkingarinnar ekki merkilegur draumur því hægt væri að komast inn í Evrópusambandið miklu fyrr. Jón Baldvin Hannibalsson sagði í fréttum í gær að hægt væri að klára málið á einu ári ef vilji stæði til þess. Hér ber þó að hafa í huga að hjá hæstv. forsætisráðherra var þetta náttúrlega engin viljayfirlýsing heldur aðeins hugboð eða draumur.

Á hinn bóginn kom fram viljayfirlýsing hæstv. forsætisráðherra í mjög mikilvægu máli. Hann kvað vera brýnt að endurskoða lagalegar takmarkanir á því að heimila útlendingum fjárfestingar í sjávarútvegi. Mikilvægt væri að laða erlent fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf og nefndi forsætisráðherra sjávarútveginn sérstaklega hvað það varðar. Sannast sagna hélt ég að vandinn væri annar í íslenskum sjávarútvegi og tengdist meingölluðu kvótakerfi þar sem hagsmunir fjármagnsins réðu of miklu á kostnað byggðasjónarmiða og almannahags. En látum það liggja á milli hluta í þessari umræðu. Þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er hér staddur væri æskilegt að fá viðbrögð hans við þessum yfirlýsingum forsætisráðherra.

Telur hæstv. sjávarútvegsráðherra að afnema eigi lagalegar skorður við fjárfestingum erlendra fyrirtækja og fjármálamanna við fjárfestingum í fiskvinnslu og sjávarútvegi? Annaðhvort vegna þess að slíkt sé beinlínis æskilegt eins og skilja mátti á tali hæstv. forsætisráðherra á fundi viðskiptaráðsins í gær eða eins og stundum er sagt að tæknilega sé illmögulegt að komast hjá slíku vegna beinnar eða óbeinnar eignaraðildar eins og stundum er haldið fram.