132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:25]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom víða við í ræðu sinni. Reyndar einkenndist hún meira af söguskýringum (Gripið fram í.) og upprifjun á (Gripið fram í.) ákveðinni þróun á umliðnum árum en hv. þingmaður mátti þó eiga það að ég held að hann hafi ekki nefnt einn einasta jákvæðan punkt í ræðu sinni hér á 15 mínútum. Ég held að hv. þingmaður hefði átt að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra að vörður verður staðinn um starfsemi byggðamála á Sauðárkróki, vörður verður staðinn um þá starfsemi, starfsemi verður efld á Ísafirði og Egilsstöðum í framhaldinu og að við skulum horfa til framþróunar í þessum málum, að verið sé að samþætta hið mikilvæga hlutverk sem þessi stofnun gegnir í byggðamálum. Það er mjög mikilvægt og ég held að hv. þingmaður hefði átt að fagna því.

Eins eiga hæstv. ráðherrar Björn Bjarnason og Árni Magnússon þakkir skildar fyrir að flytja á milli 20 og 30 störf í Húnavatnssýslu. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni, sektarinnheimta á Blönduósi og Foreldraorlofssjóður norður í Húnavatnssýslu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hefur verið keppikefli þessara byggða að fá opinber störf heim í hérað. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að þingmenn viðkomandi kjördæmis geti þess sem vel er gert og horfir til framfara.

Ég vil svo minna hv. þingmann á að ég hóf afskipti af pólitík á árinu 2000 og þekki þá sögu þegar starfsemi Íbúðalánasjóðs var flutt á Sauðárkrók og starfsemi Byggðastofnunar líka. Það voru umdeild verkefni á sínum tíma en ég held að sá flutningur hafi sýnt sig og sannað. Ég vil benda hv. þingmanni á að Framsóknarflokkurinn kom þar m.a. allverulega að máli.