135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[15:33]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Það er flutt í þeim tilgangi að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2005/29/EB frá 11. maí 2005, um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum. Umræddri tilskipun er ætlað að samræma löggjöf aðildarríkja ESB um vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda gagnvart óréttmætum viðskiptaháttum fyrirtækja. Markmiðið er að auka neytendavernd á innri markaðnum með samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna um óréttmæta viðskiptahætti sem skaða fjárhagslega hagsmuni neytandans. Tilskipunin felur að vissu leyti í sér nýmæli um lagasetningu á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem með henni er stefnt að allsherjarsamræmingu á svæðinu á lagaákvæðum sem vernda neytendur samkvæmt gildissviði tilskipunarinnar. Það felur í sér að lög aðildarríkjanna mega hvorki ganga lengra né skemur en ákvæði tilskipunarinnar. Þær tilskipanir sem samþykktar hafa verið á sviði neytendaverndar hafa hingað til yfirleitt verið lágmarkstilskipanir og því hefur almenna reglan verið sú að heimilt hefur verið að setja ítarlegri eða strangari reglur um neytendavernd við innleiðingu þeirra en ákvæði þeirra mæla fyrir um.

Innleiðingin felur í sér nokkrar efnisbreytingar á lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Innleiðingin á tilskipuninni felur þó ekki í sér miklar breytingar á þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur á grundvelli hennar hingað til. Í hinni nýju tilskipun er þó lögð meiri áhersla á að aðgreina betur en gert hefur verið í gildandi lögum þá viðskiptahætti sem geta breytt fjárhagslegri hegðun neytenda verulega frá öðrum viðskiptaháttum sem geta raskað hagsmunum neytenda út frá öðrum og almennari sjónarmiðum. Ákvæði gildandi laga vernda einnig hagsmuni neytenda og keppinauta jöfnum höndum en gera ekki sérstakan greinarmun þar á. Í tilskipuninni og því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er hins vegar greint á milli háttsemi fyrirtækja gagnvart neytendum annars vegar og háttsemi fyrirtækja gagnvart keppinautum sínum hins vegar. Til að nefna dæmi um það sem flokkast undir óréttmæta viðskiptahætti er það t.d. þegar tilteknar verslanir auglýsa landsins mesta úrval af einhverju, að þeir séu bestir í öðru eða að yfir standi útsala og tilboð þar sem verð hefur ekki lækkað raunverulega og fullyrðingarnar eru án rökstuðnings.

Nú vík ég nánar að einstökum efnisatriðum frumvarpsins. Lagt er til að heiti gildandi laga verði breytt þannig að heiti þeirra verði meira lýsandi fyrir efni laganna en núverandi heiti þeirra er. Af frumvarpinu leiðir auk þess að bæta verður við nokkrum köflum við lögin og breytast númer á lagagreinum til samræmis við það.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gerð verði nokkur breyting á II. kafla gildandi laga. Innleiðing tilskipunar 29/EB kallar á ákveðna uppstokkun á ákvæðum gildandi laga og er með frumvarpinu lagt að farin verði sú leið að II. kafla verði skipt upp í fleiri kafla, m.a. til að ákvæði laganna verði sem skýrust með innleiðingu tilskipunarinnar.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja efni einstakra greina en vil þó víkja nánar að ákveðnum atriðum frumvarpsins eftir því sem ég tel ástæðu vera til. 5. gr. gildandi laga er almenn og samræmist ekki að öllu leyti ákvæðum framangreindrar tilskipunar. Eins og fram hefur komið felur tilskipunin í sér allsherjarsamræmingu á lögum í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og setur fram sérstök viðmið um hvað teljist óréttmætir viðskiptahættir að því er varðar fjárhagslega hagsmuni neytenda. Af þeirri ástæðu er ákveðnum vandkvæðum bundið að eitt af meginákvæðum laganna er vísiregla líkt og 5. gr. gildandi laga. Þrátt fyrir að ekki sé fjallað sérstaklega um fjárhagslega hagsmuni neytenda í gildandi lögum verður að telja að slíkir hagsmunir hafi engu að síður verið verndaðir. Að því leyti er ekki um að ræða breytingu við þetta með frumvarpinu.

Tilskipunin leggur bann við óréttmætum viðskiptaháttum og verður það því áfram í lögum við innleiðingu hennar. Viðmiðin verða þó breytt að því er varðar fjárhagslega hagsmuni neytenda vegna ítarlegri ákvæða tilskipunarinnar um það efni eins og betur kemur fram síðar í ræðu minni.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að inn í lögin komi nýr III. kafli um vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda og er það nauðsynlegt til innleiðingar á tilskipuninni. Fjárhagslegir hagsmunir neytenda eru ekki skilgreindir sérstaklega í tilskipuninni en í inngangsorðum hennar segir m.a. að hún taki til viðskiptahátta sem sé beinlínis ætlað að hafa áhrif á viðskiptaákvarðanir neytenda varðandi vörur og þjónustu, eins og dæmið sem ég nefndi áðan sýnir.

Eins og fram kom skal meta hvort háttsemi fyrirtækis teljist óréttmæt — skoða skal hvort háttalagið geri það að verkum að neytandinn tekur ákvörðun um að eiga viðskipti sem hann hefði ella ekki tekið. Tilskipunin leggur til grundvallar hvað þetta varðar hvort viðskiptahættirnir raski verulega, eða séu líklegir til að raska verulega hegðun hins „venjulega“ neytanda í fjárhagslegu tilliti. Þannig hefur það ekki beint þýðingu hvaða áhrif viðskiptahættir hafa á einn tiltekinn neytanda heldur hvaða áhrif almennt má áætla að viðskiptahættirnir hafi á neytendur og skal það sama gilda hér á landi.

Þess má geta að samkvæmt ákvæði í nýrri grein laganna er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um þá viðskiptahætti sem skulu undir öllum kringumstæðum teljast óréttmætir. Skulu reglurnar miðast við þá viðskiptahætti sem tilgreindir eru í 1. viðauka tilskipunarinnar. Listi þessi er tæmandi en samkvæmt tilskipuninni skal sami listi gilda í öllum aðildarríkjunum og má aðeins breyta honum með breytingu á tilskipuninni. Í þessum kafla er svo að finna nánari ákvæði um hvaða viðskiptahættir skuli teljast villandi en einnig er í ákvæðunum að finna atriði sem varða vöruna og skylt er að veita upplýsingar um svo og helstu einkenni hennar, t.d. magn, gæði, samsetningu, áhættu, ávinning, uppruna eða niðurstöður og mikilvæg einkenni prófana eða athugana sem gerðar hafa verið á vörunni, verð, þjónustu, viðskiptavini og áhættu af söluhlut.

Áfram er gert ráð fyrir ákvæðum um útsölur í þessum kafla og er það ákvæði samhljóða 14. gr. gildandi laga. Alloft hefur reynt á ákvæði gildandi laga í framkvæmd og því er lagt til að framsetning þess verði með sama hætti og nú er enda hagsmunir neytenda af því miklir. Í þessum kafla er einnig að finna tillögu um innleiðingu á 8. og 9. gr. tilskipunarinnar í h-lið 2. gr. frumvarpsins. Greininni er ætlað að taka á því ef valfrelsi og athafnafrelsi neytenda við ákvörðun um viðskipti með vöru er takmarkað með ótilhlýðilegum hætti og eru til þess fallnir að hafa áhrif þannig að hann taki ákvörðun sem hann hefði ella ekki tekið en ákvæðið er nýmæli.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að inn í lögin komi nýr IV. kafli um vernd annarra hagsmuna neytenda en fjárhagslegra. Greinin er að nokkru leyti sambærileg 5. gr. gildandi laga en vegna innleiðingar tilskipunarinnar er í 2. mgr. lagt til að gildissviði hennar sé breytt þannig að það gildi eingöngu um aðra hagsmuni neytenda en fjárhagslega. Orðalagið er almenns eðlis og er tilgangurinn með því sá að um þessa hagsmuni gildi áfram þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar túlkun 5. gr. gildandi laga. Sem dæmi um eitthvað sem tilskipunin gildir ekki um eru til að mynda atriði sem varða smekk og velsæmi. Hverju aðildarríki um sig er þó heimilt að setja reglur um viðskiptahætti sem varða atriði sem teljast ekki falla undir að vera fjárhagslegir hagsmunir neytenda og eru því utan við hið samræmda svið tilskipunarinnar.

Þá er í 2. gr. frumvarpsins lagt til að inn í lögin komi nýr V. kafli um háttsemi milli fyrirtækja. Í þeim kafla er lagt til að í lögum verði áfram sambærileg ákvæði og eru í 1. mgr. 6. gr. gildandi laga, þó með þeirri undantekningu að nú er lagt til að hún gildi eingöngu um keppinauta. Rétt er að taka fram að ákvæðum um innleiðingu tilskipunarinnar er ekki ætlað að veita síðri vernd en veitt er með 6. gr. gildandi laga. Önnur ákvæði þessa kafla eru jafnframt sambærileg við ákvæði gildandi laga, samanber t.d. ákvæði sem kom inn í lögin með samþykki laga nr. 107/2000 við innleiðingu tilskipunar 97/55, um samanburðarauglýsingar. Þetta á einnig við um bann gildandi laga við því að nota firmanafn, verslunarmerki eða annað slíkt í atvinnustarfsemi án réttinda.

Þá er einnig í 2. gr. frumvarpsins lagt til að inn í lögin komi nýr VI. kafli um ábyrgðaryfirlýsingar, trúnaðarskyldur o.fl. Í þessum kafla frumvarpsins er að finna reglur sem fjalla um leiðbeiningarskyldu seljanda vöru og þjónustu, ábyrgðaryfirlýsingar og hvenær megi gefa slíkar yfirlýsingar. Eins er þar að finna reglur um upplýsingaskyldu til neytenda þegar ábyrgðaryfirlýsing er veitt, reglur um vernd rekstrar- og atvinnuleyndarmála og jafnframt auðkenni til að merkja vörur. Öll ákvæðin eru samhljóða ákvæðum gildandi laga og hafa reynst vel og þarfnast ekki nánari skýringa út af fyrir sig.

Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 16. gr. laganna, um heimildir Neytendastofu til að setja nánari reglur á grundvelli laganna, verði færð í lokakaflann. Ekki eru lagðar til miklar breytingar á orðalagi ákvæðisins en þar sem lagt er til að ákvæðum þeim sem vísað er til verði breytt umtalsvert, munu heimildir Neytendastofu til að setja reglur breytast til samræmis. Neytendastofa mun hér eftir sem hingað til hafa heimild til að setja nánari reglur til að koma í veg fyrir að upplýsingar séu villandi eða óhæfilegar gagnvart neytendum og jafnframt hafa heimild til að setja almennar reglur um beitingu reglna skv. II.–V. kafla, sem er mjög þýðingarmikið í framkvæmd.

Loks eru í b-lið 3. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 1. mgr. 22. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um stjórnvaldssektir. Breytingarnar leiðir alfarið af þeim breytingum sem lagðar eru til á gildandi lögum vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Er þannig lagt til að Neytendastofu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laganna um bann við óréttmætum viðskiptaháttum skv. II.–V. kafla frumvarpsins, þar á meðal um efni upplýsinga sem veittar eru á sölustað, í auglýsingum eða með öðrum viðskiptaaðferðum í tengslum við sölu á vöru og þjónustu. Í öðru lagi nær sektarheimildin til þess ef fyrirtæki brjóta gegn aðgerðum Neytendastofu vegna athafna sem brjóta í bága við ákvæði II.–IV. kafla frumvarpsins eða fyrirmæla Neytendastofu skv. 21. gr. b. Í þriðja lagi nær sektarheimildin til þess ef brotið er gegn reglum eða fyrirmælum Neytendastofu um ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði skv. 18. gr.

Að síðustu er lagt til í 4. gr. að heiti laganna breytist og verði: lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni frumvarps til laga um breytingar á lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, og legg til að máli þessu verði vísað til hv. viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.