138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýtrustu kröfurnar eru öll upphæðin sem tilgreind er í samningunum, í grein 2.1.1 í breska samningnum og ég man ekki hvaða númer er á henni í hollenska samningnum. En þarna eru hámarksupphæðirnar tilgreindar.

Varðandi þetta mál yfirleitt vil ég gjarnan horfa til framtíðar og horfa á þau vandræði sem við stöndum frammi fyrir og þau verkefni sem þarf að leysa. Einn liður í því að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í er að leysa Icesave-deiluna. Um það hljóta hv. þingmenn að vera sammála. Við þurfum að leysa þetta mál þannig að við getum haldið endurreisnarferlinu áfram. Málið flækist fyrir okkur.

Samningunum, sem ég segi að séu ásættanlegir, (Forseti hringir.) fylgir líka möguleiki á skuldastýringu.