140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:18]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti Af hverju tímabundið úr því að þetta er svona snjöll lausn? Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, yfirhagfræðingur Sjálfstæðisflokksins, hefur sýnt okkur fram á að með því að fella niður þó ekki sé nema bara þennan pínulitla hluta af gjöldunum sem lögð eru á bensín og dísilolíu þá snýst hrunið nánast við.

Forseti. Hrunið snýst við, það verður allt gott. Hér fara að vaxa pálmatré og veiðidýr fara að ganga um á sléttunum miklu sem verða til uppi í öræfum. Þetta er auðvitað ekki svona. Ef það væri svona mundi hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir leggja til að þetta yrði gert ótímabundið, þetta hætti sem sé ekki. En það sem kemur í ljós er að hún trúir ekki á að það sé kúfur og hún vill auðvitað hafa þetta frumvarp til að flytja næsta ár líka.

Það er kosningaár næst og þetta var flutt í mars í fyrra. Þá lögðu Tryggvi Þór Herbertsson (Gripið fram í.) og 15 aðrir sjálfstæðismenn fram frumvarp sem var alveg eins. Tilteknar ástæður voru nefndar fyrir því að leggja ætti það fram, annars vegar Arabíuóróinn og hins vegar kjarnorkuslysið í Japan. Síðan átti þetta að vera búið 1. janúar 2012. Núna, árið 2012, var þetta sem sé ekki búið, en tillagan var ekki samþykkt þannig að hægt er að endurnýta hana, nota hana aftur, og nú er það aftur Arabíuóróinn, sem heldur áfram og hætti ekki 1. janúar 2012, eins og hv. þingmaður hélt, og svo eru það að sjálfsögðu kuldarnir í Evrópu. Það kemur svo fram í orðum Tryggva Þórs, og hann horfir fram til þess með mikilli glaðværð, af því að hann telur að þetta frumvarp verði kannski ekki (Gripið fram í.) samþykkt hjá sér, að næsta ár haldi óróinn í Arabíu áfram og kannski verði komið stríð í Íran.