141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:16]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu sem og öðrum þeim breytingartillögum sem verða fluttar á eftir við rammaáætlun. Það geri ég af virðingu við það ferli sem ákveðið var í þingsályktun Alþingis um rammaáætlun vegna þess að með afgreiðslu þessa máls er ekki verið að leggja fram óskalista einstakra þingmanna. Það á ekki að þjóna í þessu máli pólitískri skammtímahugsun heldur er hér um að ræða heildstæðan sáttmála.

Ég vek athygli á því að þær breytingartillögur sem fluttar verða hér á eftir koma margar hverjar frá þeim sem hafa talað hvað hæst um að málið skuli hafa verið tekið út úr faglegum farvegi, sem auðvitað er ekki rétt. Þessir einstaklingar hafa mest talað um mikilvægi faglegra vinnubragða og að pólitíkusar eigi ekki að setja fingur sína í þetta mál en eru svo hér að setja fram sína persónulegu óskalista um einstaka virkjunarkosti.

Ég tek ekki þátt í slíku (Forseti hringir.) og greiði atkvæði gegn öllum þessum breytingartillögum.