148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Mig vantar enn að fá fram helstu breytingar sem hafa átt sér stað frá 15. mars þangað til núna, frá þeim drögum. Hverjar eru stærstu breytingarnar frá drögunum sem við sáum 15. mars þangað til núna?

Svo myndi ég gjarnan vilja heyra frá hæstv. ráðherra hversu mörg ákvæði eru valkvæð. Hvaða ákvæði eru það og hversu mörg eru þau sem eru valkvæð fyrir Ísland, þ.e. hvar höfum við einhvers konar útfærslurými?

Mig langar líka að gera smáathugasemd við þær athugasemdir sem hæstv. ráðherra hefur látið falla hér um að málið sé mögulega of snemma fram komið. Það eru margar ástæður fyrir því að ég botna ekkert í þeirri staðhæfingu. Í fyrsta lagi gerði hæstv. ráðherra ráð fyrir því að málið yrði lagt fram í janúar samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ég spyr mig: Ef henni finnst, korteri í þinglok, viku fyrir þinglok, málið of snemma fram komið, af hverju í ósköpunum ætlaði hún að birta það í janúar? Var það mögulega til þess að málið fengi vandaða þinglega meðferð, til að við gætum sett okkur inn í málin, til að við gætum sest vel yfir þetta, til að við gætum lagt mat á hvar við viljum nýta okkar svigrúm og hvar ekki? Er ekki frekar fáránlegt af hæstv. ráðherra að tala um að þetta mál sé of snemma fram komið?