154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má geta þess að í umsögnum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands við málið þá hvetja þau mjög til þess og í heimsókn til utanríkismálanefndar á þeim tíma að það væri stofnað til þessa rannsóknarseturs. Mér fannst nefnilega hv. þingmaður vera að tala hér áðan í ræðu um að það væri skortur á umræðu um þessi mál og þyrfti kannski að efla þekkingu almennt um þessi mál og efla umræðuna, sem ég tek svo sannarlega undir, hún má vera miklu meiri. Ég held að miðað við það ástand sem hefur skapast hér á síðustu tveimur árum, núna í febrúar, 24. febrúar, verða komin tvö ár síðan Rússar réðust inn í Úkraínu og þá breyttist öll þessi umræða og náttúrlega gríðarlega mikið á Norðurlöndunum. Í janúar 2022 minnir mig að um 26% Finna hafi viljað ganga í NATO. Í marsmánuði var þetta orðið 76%. Það breyttist gjörsamlega öll þeirra umræða til áratuga á rúmum mánuði. Svipað gerðist í Svíþjóð. Þessu þurfum við að halda til haga og öllu í kringum þetta. Þegar öll Norðurlöndin verða orðin hluti af NATO, vonandi fer þetta að ganga með Svíana, vonandi á næstu mánuðum, þá verður það, skilst mér, í fyrsta skipti í 500 ár sem öll Norðurlöndin eru í sama bandalaginu þegar kemur að þessum alþjóðamálum eins og varnarmálum, að verja svæðið, það ku vera 500 ár, ég heyrði það einhvern tímann nefnt í því samhengi.

Í seinna andsvari til hv. þingmanns vil ég spyrja um inngöngu Finna og Svía í NATO í samhengi við varnir Norðurlandanna í framhaldi af Úkraínustríðinu: (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður fylgjandi því að Svíar og Finnar séu hluti af NATO og þar með séu (Forseti hringir.) allar Norðurlandaþjóðirnar í þessu samstarfi sem skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli?