154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[14:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og fyrir þessa skýrslu. Mér er mjög hlýtt til Vestnorræna ráðsins þar sem ég sat lengi í því og naut m.a. þeirra forréttinda að vera forseti þess. Það er reyndar áhugaverð umræða um tungumálið sem notað er í þessu samstarfi, en það er danska, svo skrýtið sem það kann að hljóma, að öll fyrrverandi nýlenduríki, og sum sem eru enn þá undir konungsstjórn Danmerkur, hafi ákveðið að nota dönsku sín á milli. En það er önnur saga og efni í alveg heila umræðu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í hvort einhver umræða hafi skapast um það á vettvangi Vestnorræna ráðsins eða hvernig hún metur af samtölum sínum við þingmenn í Færeyjum og á Grænlandi umræðuna um fulla aðild að Norðurlandaráði. Eins og ég kom inn á í ræðunni var ræða Mútes B. Egedes mjög áhrifamikil á Norðurlandaráðsþinginu. Við fengum líka grænlenska þingmannanefnd í heimsókn til okkar hér í lok síðasta árs og þá var alveg ljóst að umræðan er greinilega mikið að gerjast þarna á Grænlandi og um það hvar þau ætla að staðsetja sig, ef svo mætti að orði komast, í alþjóðasamstarfi. Ég veit það að þau voru líka að lýsa miklum áhuga á og spyrja okkur út í NATO og hefðu gjarnan viljað taka líka upp þá umræðu. Mig langar að vita hvort þetta hafi eitthvað komið til tals eða hvernig hv. þingmaður metur þessa stöðu. Og þá kannski líka, vegna þess að ég greini það mjög skýrt frá grænlenskum þingmönnum að þeim er hlýtt til Íslands og Íslendinga og við virðumst eiga auðveldara með samstarf og samtal við þau en Danir oft á tíðum: Hvaða hlutverk getum við spilað í því að einfalda þetta og styðja okkar góðu granna í vestnorrænu löndunum, bæði Grænland og Færeyjar, sem hafa í langan tíma barist fyrir fullri aðild að Norðurlandaráði?