154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Evrópuráðsþingið 2023.

633. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. ÍÞER (Bjarni Jónsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun stikla á stóru í óvenjuviðburðaríku starfi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins árið 2023. Í umræðum á vettvangi þingsins á árinu bar hæst undirbúning og eftirfylgni leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fór fram í Reykjavík 16.–17. maí síðastliðinn, innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og umræðu um önnur brýn úrlausnarefni á borð við brottnám úkraínskra barna, árás Aserbaídsjan á Nagorno-Karabakh og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Leiðtogafundurinn í Reykjavík í maí var fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins frá stofnun þess árið 1949 en áður höfðu leiðtogar aðildarríkjanna komið saman í Vínarborg árið 1993, í Strassborg árið 1997 og í Varsjá árið 2005.

Evrópuráðið verður 75 ára á þessu ári en hlutverk þess er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu.

Ísland gekk í ráðið ári eftir stofnun þess, þann 7. mars 1950. Þáverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, sótti fund ráðherranefndar það sama ár og ritaði af því tilefni grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 12. apríl. Þar sagði hann frá tilurð og tilgangi Evrópuráðsins og fjallaði sérstaklega um mikilvægi ráðsins fyrir smáríkið Ísland en hann taldi samtökin smáþjóðunum nauðsynlegust. Engin ríki ættu meira undir farsælu starfi alþjóðastofnana en smáríki. Þessi orð eiga ekki síður við í dag. Þetta rifjaði ég upp í fyrirspurnatíma Evrópuráðsþingsins í liðinni viku við utanríkisráðherra Liechtenstein sem nú fer með formennsku í Evrópuráðinu. Sömuleiðis að á umliðnum árum höfum við aukinheldur lært að smærri sjálfstæðar þjóðir eru oftar en ekki farsælli í að skapa samstöðu og leiða alþjóðlegt samstarf á krefjandi og erfiðum tímum, öðlast frekar traust til að sameina þjóðir, smáar sem stórar, að baki sameiginlegum gildum okkar.

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og gegndi henni fram til 17. maí síðastliðinn en þá tók Lettland við keflinu. Formennska í Evrópuráðinu tekur ekki til Evrópuráðsþingsins. Forseti þess er kosinn á grundvelli tilnefninga flokkahópa sem á þinginu starfa en þingmaður frá formennskuríki Evrópuráðsins tekur þó alltaf sæti í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins. Því sat ég í framkvæmdastjórninni í tengslum við formennskutíð Íslands í ráðinu, auk þess að sitja áfram í stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins sem formaður Íslandsdeildar.

Af hálfu þingmanna Alþingis erum við þrjú sem sitjum í Íslandsdeild en ásamt mér voru aðalmenn í Íslandsdeild Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður og Birgir Þórarinsson. Varamenn voru Jódís Skúladóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Björn Leví Gunnarsson við upphaf árs en Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tók sæti Björns Levís á þingfundi Evrópuráðsþingsins í apríl.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu setti svip sinn á starf Íslandsdeildar og var hún í miklu gestgjafahlutverki á árinu og til hennar leitað venju fremur. Undir lok árs 2022 tók Alþingi á móti stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins venju samkvæmt við formennskutíð Íslands í ráðinu en vegna leiðtogafundarins í Reykjavík í maí kom stjórnarnefndin aftur saman hér á landi á sérstökum aukafundi í aðdraganda fundarins þann 15. maí. Á fundinum voru tekin til umræðu mikilvæg málefni sem snertu áherslu leiðtogafundarins, m.a. um stöðu og framtíð lýðræðis, marghliða samvinnu, sameiginleg gildi og nýja kynslóð réttinda. Þá voru einnig kynnt til sögunnar ný verðlaun í nafni Vigdísar Finnbogadóttur sem veitt verða í þingfundaviku Evrópuráðsþingsins í júní ár hvert fyrir framúrskarandi árangur á sviði valdeflingar kvenna.

Þá er þó ekki allt upp talið þar sem nefnd Evrópuráðsþingsins um fólksflutninga og málefni flóttafólks kom saman í Reykjavík í september. Nefndina skipar 81 þingmaður frá aðildarríkjum Evrópuráðsþingsins og á Birgir Þórarinsson sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Ísland var því mikilvægur vettvangur þingmanna Evrópuráðsþingsins sem komu saman þrisvar sinnum hér á landi á tíu mánaða tímabili. Fundirnir þóttu allir takast afar vel og voru þeir umtalaðir á vettvangi Evrópuráðsþingsins þar sem þeir voru lofaðir í hástert af þingmönnum og öðrum góðum gestum.

Ákveðið var að veita auknar heimildir til þátttöku á þingfundum Evrópuráðsþingsins í formennskutíð Íslands og gafst varamönnum Íslandsdeildar færi á að sækja tvo fyrri þingfundi ársins jafnhliða aðalmönnum, en alls fundar Evrópuráðsþingið fjórum sinnum á ári í viku í senn í Strassborg. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, ávörpuðu Evrópuráðsþingið í Strassborg og áttu fundi með Íslandsdeild ásamt fastafulltrúa Íslands hjá Evrópuráðinu, Ragnhildi Arnljótsdóttur. Oddný Mjöll Arnardóttir var kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Íslands hönd, fyrst íslenskra kvenna, og Václav Havel mannréttindaverðlaunin voru veitt í 11. sinn á þingfundi í október í Strassborg. Komu þau í hlut Osman Kavala sem hefur verið pólitískur fangi í Tyrklandi frá því í október 2017. Þá samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins undir formennsku Íslands að taka fyrir aðildarumsókn Kósovó að Evrópuráðinu. Málinu hefur því verið vísað til Evrópuráðsþingsins sem hefur nú aðildarumsóknina til umfjöllunar.

Aðildarríki Evrópuráðsins eru 46 talsins í dag en Rússlandi var vísað úr ráðinu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022. Evrópuráðið nær því til alls um 830 milljóna íbúa sem mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Rússlandi, Belarús og Kósovó undanskildum miðað við óbreytta stöðu. Fulltrúar Evrópuráðsþingsins eru 306 talsins og jafn margir til vara.

Annað sem vert er að nefna af störfum Íslandsdeildar er að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gegndi stöðu formanns undirnefndar laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um gervigreind og mannréttindi og sat í undirnefndum laga- og mannréttindanefndar um mannréttindi og um framfylgd úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún gegndi einnig stöðu annars varaformanns reglunefndar frá janúar og fram í apríl og var fengin til að stýra umræðu eða flytja erindi á sex fundum og ráðstefnum um mismunandi málefni á árinu. Þá var Þórhildur Sunna skipuð framsögumaður af hálfu laga- og mannréttindanefndar í málefnum pólitískra fanga og gegndi hún stöðu framsögumanns fyrir tveimur skýrslum á árinu, annars vegar í tengslum við eftirlit með skuldbindingum Búlgaríu gagnvart Evrópuráðinu og hins vegar um óréttmæta fangelsun Vladímír Kara-Murza og kerfisbundnar ofsóknir í Rússlandi gegn andstæðingum árásarstríðs Rússlands. Þórhildur Sunna fór jafnframt í kosningaeftirlit til Tyrklands í maí.

Birgir Þórarinsson kynnti skýrslu flóttamannanefndar um yfirvofandi neyðarástand í mannúðarmálum í Afganistan og meðal afgansks flóttafólks á fundi flóttamannanefndar í Reykjavík og tók einnig þátt í pallborðsumræðum í tengslum við fundinn þar sem áhersla var lögð á eftirfylgni leiðtogafundar og sjónum beint að þeim þáttum Reykjavíkuryfirlýsingarinnar sem snúa að inngildingu flóttafólks og innflytjenda. Birgir fór í vettvangsferð til Tyrklands vegna skýrslugerðar um stöðu mannúðarmála í Afganistan og kynnti skýrsluna á þingfundi Evrópuráðsþingsins í október þar sem skýrslan var samþykkt samhljóða. Þá var Birgir skipaður framsögumaður í málefnum afgansks flóttafólks af hálfu flóttamannanefndar og gegndi áfram stöðu framsögumanns fyrir skýrslu um eftirlit með skuldbindingum Úkraínu gagnvart Evrópuráðinu.

Auk þess að sitja fundi framkvæmdastjórnar tók sá sem hér stendur þátt í fundi formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, NP8, á Evrópuráðsþinginu og stýrði ég einnig einum slíkum fundi sem fram fór í þingfundaviku í Strassborg í október. Þá sótti ég einnig þrjá fundi stjórnarnefndar sem fulltrúi Íslandsdeildar í Haag, í Ríga og Vaduz, auk fundarins sem haldinn var í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar þar sem ég var einn frummælenda. Ég tók einnig þátt í starfi þingmannanets um heilnæmt umhverfi og átti sæti í sérnefnd á vegum framkvæmdastjórnarinnar um brottnám úkraínskra barna og í annarri sérnefnd um framtíð lýðræðis í Belarús. Þá tók ég þátt í undirbúningsvinnu vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins hér á landi í maí, var frummælandi á ráðstefnu um mannréttindi og lýðræði í Kristiansand í Noregi fyrir hönd íslensku formennskunnar í Evrópuráðinu og tók þátt í fleiri fundum og ráðstefnum sem tengdust formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Að auki má geta þess að Íslandsdeild auglýsti eftir umsóknum í janúar um stöðu fulltrúa Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, CPT-nefndin svokallaða. Íslandsdeild tilnefndi þrjú til setu í nefndinni og eftir efnislega meðferð á vettvangi Evrópuráðsþingsins og innan ráðherranefndarinnar var Elsa Bára Traustadóttir endurkjörinn til setu í CPT-nefndinni fyrir tímabilið 20. desember 2023 til 19. desember 2027.

Virðulegi forseti. Ég hef nú dregið saman helstu starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á árinu 2023 en vísa að öðru leyti til ársskýrslunnar í heild sem er aðgengileg á vef Alþingis. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka þingmönnum Íslandsdeildar fyrir samstarfið á árinu.