131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:47]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það mætti líka umorða spurningu hv. þingmanns með þessum hætti: Hv. þingmaður var í raun og veru að spyrja og gefa til kynna að það væri mjög óeðlilegt að aðili sem bæði hefði útgerð og fiskvinnslu hefði sérstakan aðgang að sínu eigin hráefni. Um það snýst umræðan í raun og veru. Það er kjarni þessarar umræðu. Ég get vel virt það að hv. þingmaður hafi aðra skoðun en ég í þessum efnum. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að það er grundvallaratriði og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskan sjávarútveg að reynt sé að tryggja samræmingu veiða og vinnslu, tryggja það að einmitt sá sem hefur aðganginn að hráefninu geti varið honum til þess að nýta það til hagsbóta fyrir fiskvinnslu sína, til þess að tryggja aðgengið að mörkuðunum, tryggja þetta nauðsynlega framboð á mörkuðunum.

Það var ákaflega lærdómsríkur fundur sem við nokkrir þingmenn úr sjávarútvegsnefnd áttum með fulltrúum frá Noregi sem voru að fara yfir vandann sem við er að glíma í norskum sjávarútvegi. Hver var kjarni þess máls? Hver var kjarni vandans? Hvert var aðalatriðið sem þeir undirstrikuðu í samtölum við okkur? Það var (Forseti hringir.) að í Noregi væru það skilin þarna á milli sem væru að rústa þeirra eigið markaðsstarf og kæmu í veg fyrir að þeir gætu gert jafn vel og við Íslendingar.