133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér enn stjórn fiskveiða. Það er rétt að rifja upp markmið laganna sem koma fram í 1. gr., ef ég man rétt. Í fyrsta lagi að byggja upp fiskstofnana, og við vitum hvernig það hefur gengið, og í öðru lagi að tryggja byggð í landinu.

Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra vegna þess hve kerfið hefur leikið byggðir landsins illa — við getum t.d. tekið Bíldudal þar sem ítrekað hefur verið lofað, m.a. af núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, að rétta hag þess byggðarlags sem hefur farið mjög illa út úr þessu kerfi — hvort ekki sé rétt að auka jafnvel þennan pott. Þó svo að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki mikla trú á því að stýra fiskveiðum með kvótum höfum við verið jákvæðir gagnvart þessum byggðakvóta vegna þess að þetta hefur verið eina vörn byggðarlaga sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu.

Mér finnst menn ekki hafa nýtt þessa lagaheimild og ég skil í rauninni ekki hvers vegna þessi pottur er ekki stærri en 12.000 tonn, vegna þess að höggvin hafa verið djúp skörð í byggðir landsins með þessum lögum. Markmið laganna hefur ekki náðst. Ég hefði viljað fá betri rökstuðning fyrir þessum 12.000 tonnum sem eru innan við 5% af heildarbotnfisksaflanum. Til þess að markmið laganna náist ætti þessi pottur að vera stærri. Það væri fróðlegt að fá að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa efnis.