146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:37]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið minnst á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í apríl 2017. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir áralöng fyrirheit um að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafa aðgerðir stjórnvalda ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að þegar lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru samþykkt. Með þeim átti meðal annars að efla verknám og ná fram sterkara samstarfi skóla, vinnustaða og atvinnulífsins í heild. Lögin áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Það hefur ekki gengið eftir.“

Hvers vegna hefur það ekki gengið eftir? Í skýrslunni er svarið að finna. Þar er talað um ómarkvissa stefnumörkun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda, að þær eigi umtalsverðan þátt í því að starfsnám standi enn höllum fæti.

Ég vil minna á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þetta ráðuneyti undir verndarvæng sínum í tvö kjörtímabil.

Ég velti því fyrir mér, virðulegur forseti, hverju við megum eiga von á næst. Verða hinir iðnskólarnir á höfuðborgarsvæðinu sem eftir standa sameinaðir Tækniskólanum? Hvað með MK? Ætla stjórnvöld smám saman að koma öllu starfsnámi í hendur einkaaðila, líka því sem er starfrækt úti á landi? Ætla menn kannski að stíga skrefið til fulls og dusta rykið af gömlum hugmyndum Viðskiptaráðs um þrjá til fjóra framhaldsskóla á Íslandi?

Allt er breytingum háð í þessum heimi. Það gildir líka um menntastofnanir, þær koma og fara. Við hljótum alltaf að leita leiða til að bæta okkur og það samfélag sem við erum hluti af. Við megum ekki staðna en við megum heldur ekki leggja af stað í leiðangur ef við vitum ekki hvert ferðinni er heitið.

Að lokum vil ég þakka ráðherra og þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessum umræðum í dag.