151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil nota nokkrar mínútur til að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið í kringum frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum er lýtur að banni við afneitun helfararinnar. Hér hafa komið fram margir áhugaverðir punktar, til að mynda að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur með dómafordæmi sínu sýnt fram á samþykki sitt fyrir lagasetningu eins og hér um ræðir. Sömuleiðis vil ég taka undir með hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem minnti á systurákvæði almennra hegningarlaga um refsingu við hatursorðræðu.

Ég er sannfærð um að þetta frumvarp hér sé af hinu góða og muni verða til þess að við sem löggjafarvaldið gefum skýr skilaboð um að sporna við uppgangi fasisma, uppgangi hatursorðræðu, sem sannarlega hefur átt sér stað í Evrópu. Ég vil benda á að á milli áranna 2018 og 2019 sáum við 74% aukningu ofbeldisbrota sem grundvölluðust á hatursorðræðu í garð gyðinga í Frakklandi og sömuleiðis, á sama tímabili, 2018–2019, var 60% aukning á hatursglæpum í garð gyðinga í Þýskalandi þar sem undanfarinn var akkúrat hatursorðræða í garð gyðinga, og er afneitun helfararinnar hluti af því.

Ég vil líka þakka fyrir ræðu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar. Ég gleymdi einfaldlega að minnast á það í ræðu minni að tengja þessa sögu við okkar eigin sögu og minna á minningabók Leifs Müllers þar sem fram koma endurminningar þess ágæta manns sem upplifði hörmungar sem enginn okkar vill upplifa, en tengir þessa hörmulegu sögu við íslenskt samfélag.

Það er líka rétt sem hér hefur fram komið í máli hv. þingmanna, að þetta frumvarp snýst ekki um fortíðina heldur snýst það um að læra af fortíðinni og koma í veg fyrir að mistök fortíðarinnar, herfileg mistök, endurtaki sig með nokkrum hætti. En það er líka þannig, eins og bent hefur verið á hér í ræðum, að það er hættuleg hugmyndafræði. Hún getur „spírallast“ mjög fljótt og orsakað glæpi sem eru stórhættulegir, skaðlegir lýðræðinu og skaðlegir samfélaginu. Og því miður höfum við séð þá þróun bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Ég tel að við sem íslenskt samfélag þurfum að vera á varðbergi og koma í veg fyrir að viðlíka hatursorðræða og glæpir geti átt sér stað hér á landi, því að það er veruleg hætta á því. Sömuleiðis vegna þess að við erum þjóð á meðal þjóða og við erum hluti af alþjóðlegu samfélagi og erum því miður partur af þeirri þróun sem átt hefur sér stað, þó svo að við vonum að sjálfsögðu hið besta í þeim efnum.