152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:43]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf áhugavert þegar mér er legið á hálsi fyrir að tala ekki nógu mikið. Það er nú yfirleitt þannig að ég tala of mikið. En í þessari umræðu er alveg sjálfsagt að koma hér upp. Ég skil vel, þegar farið er í jafn mikilvægt verkefni og að selja banka, að menn reyni að tryggja að slíkt ferli sé algerlega hafið yfir vafa. Það var verulegur aðdragandi að þessu og það má vel vera að staðan sé sú að við viljum fá Ríkisendurskoðun eða eftir atvikum þingið til að skoða þetta ferli betur. Við höfum fengið kynningar á málinu. Ég held að á heildina litið hafi þetta tekist mjög vel og til að eyða allri tortryggni finnst mér sjálfsagt að fara í slíkt hér innan þingsins og styð það heils hugar.