152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Kjaragliðnunin á milli greiðslna til öryrkja frá Tryggingastofnun og launafólks á lægstu launum er komin í 100.000 kr. á mánuði og ekkert er að sjá í fjármálaáætlun til næstu fimm ára að það eigi að brúa þetta bil. Það eru sannarlega vonbrigði. Eftir ræðu hæstv. félags og vinnumarkaðsráðherra sem hann hélt hér úr þessum ræðustól kvöldið sem hæstv. forsætisráðherra fór með stefnuræðu sína fyrir nýja ríkisstjórn var ég vongóð um að eitthvað gott gæti gerst til þess að bæta kjör öryrkja og eldra fólks sem stendur veikast fyrir. Það var samhljómur á milli hæstv. ráðherra Vinstri grænna um málefnið. Svo kemur fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þar er ekkert að finna. Voru ræðurnar bara plat, falleg orð á góðri stundu en í raunheimum verði fólk fast í fátæktargildru?

Í fjármálaáætluninni er talað um að bæta stöðu þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga og eru í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði. Úr stöðunni eigi að bæta með auknum tækifærum til atvinnuþátttöku eða hærri greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta er sem sagt eitthvað sem ríkisstjórnin getur hugsað sér að gera fyrir þau sem geta mögulega unnið stundum eða sinnt skertri stöðu. En hvað með hina? Og hvar eru fjárframlögin til að gera þetta mögulegt? Enn er frítekjumark atvinnutekna öryrkja það sama og það var árið 2010. Ef frítekjumarkið hefði fylgt launavísitölu ætti það að vera rúmar 200.000 kr. á mánuði en er nú í rétt rúmum 100.000 kr. Eiga breytingar á kerfinu kannski ekki að kosta neitt? Telur hæstv. ráðherra að það sé hægt að bæta kjör öryrkja og breyta kerfinu og að það kosti ríkissjóð lítið sem ekkert á næstu fimm árum?