152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að sitja fyrir svörum þegar við ræðum um fjármálaáætlunina. Ég tæpi á málum sem að einhverju leyti hafa komið fram en kannski ekki alveg nákvæmlega með þeim hætti sem ég legg þau upp. Talað hefur verið um það í áratugi að sátt þurfi að nást um fiskveiðistjórnarkerfið og auðlindagjöld og að undirstrika þurfi ótvíræðan eignarrétt þjóðarinnar í stjórnarskrá með tímabundnum samningum. Lítið hefur þokast í þessu eins og við þekkjum, jafnvel þótt meiri hluti þjóðarinnar telji að greiða eigi markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðum landsmanna og telji jafnvel að óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi ógni lýðræðinu; það er mjög stór hluti þjóðarinnar svo að það sé tekið fram.

Þingflokkur VG hefur talað um auðlindaákvæði í stjórnarskrá en lítið hefur verið um aðgerðir. Aðgerðir sem farið var í á síðasta þingi voru ekki til þess fallnar að tryggja tímabindingu nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni. Á sama tíma er arðsemi útgerðarinnar, fjárhagsstyrkur hennar og aðgengi að erlendu lánsfé mun meira en í öðrum atvinnugreinum. Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa talað um gjald á ofurhagnað en ekki er eining um það við ríkisstjórnarborðið hvað telst ofurhagnaður eða þá að það eigi yfir höfuð að gjaldleggja hann sérstaklega.

Við höfum verið að benda á það hér að að öllum líkindum er meiri hluti á þingi fyrir breytingum í réttlætisátt. Ekki liggur heldur fyrir hvernig gjaldtakan, sem hér er talað um, á að fara fram, hvort það er í gegnum veiðigjöldin sjálf eða í gegnum skatta líkt og formaður Framsóknarflokksins talaði fyrir nýlega. Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði af því tilefni um að erfitt væri að skilgreina þennan ofurhagnað. Mig langar að spyrja hvernig hæstv. matvælaráðherra stendur í þessari umræðu.

Þá sjást lítil merki um breytingar í fjármálaáætlun. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til gjaldtöku í sjávarútvegi? Hvað er ofurhagnaður, samanber það sem Framsóknarflokkurinn segir? Er ekki hægt að skilgreina það þvert á það sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði? Er þá ekki í raun og veru heppilegra að taka þetta allt saman í gegnum veiðigjöld, því að það er gjald fyrir afnot en ekki skattur, frekar en að gera þetta í gegnum skattkerfið sem gefur þá almenningi ekki skýrt til kynna að verið sé að verðleggja aðganginn að auðlindinni með skýrum hætti?