132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:28]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er beinlínis rangt og það er verið að afvegaleiða þessa umræðu, eins og vinstri grænir tala, með því að halda því fram að stóriðjuframkvæmdir valdi þeim miklu ruðningsáhrifum hér í landinu sem raun ber vitni. Það eru þau glæsilegu útrásarfyrirtæki okkar, bankarnir með íbúðalánum sínum og svo áhættufjárfestar erlendis með skuldabréfaútgáfu í íslenskum krónum sem hafa haft margfalt meiri áhrif en þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi eða á Grundartanga.

Það er í raun og veru einkennilegt, hæstv. forseti, að við skulum vera að rífast hér um atvinnuuppbyggingu í framtíðinni. Það endurspeglar kannski það umhverfi sem við búum við í dag, það ágæta umhverfi sem ríkisstjórnin hefur búið til. Það er mikill uppgangur í íslensku samfélagi en hver segir að það sé sjálfgefið að eftir 5–6 ár verði slíkur uppgangur í íslensku samfélagi? Það þarf að halda áfram að byggja upp atvinnulíf víða um land. Það er stefna okkar framsóknarmanna og það er stefna ríkisstjórnarinnar að næsta nýja álver verði reist á Norðurlandi. (Gripið fram í: Ekki í Straumsvík?) Að því er unnið undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra ásamt heimamönnum á viðkomandi svæði, ásamt Þingeyingum, ásamt Skagfirðingum, hv. þm. Jón Bjarnason, og ásamt Eyfirðingum. Það er eðlileg krafa hjá Norðlendingum að atvinnulíf verði líka byggt þar upp í framtíðinni. Ég vil upplýsa hv. þm. Jón Bjarnason um að það er engin átakanleg þensla á Norðurlandi um þessar mundir.

Hér eru því í raun og veru skýrar línur. Samfylkingin leikur tveimur skjöldum í þessu máli, það er engin afdráttarlaus stefna af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar í málinu, en það er svo sem ekki eini málaflokkurinn þar sem stefna Samfylkingarinnar er óskýr. Valkostirnir eru skýrir, við viljum halda áfram að byggja upp störf á landsbyggðinni og byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni.