133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Nú er markmið þessa kerfis að byggja upp fiskstofnana en það hefur bara alls ekki gengið. Ég vil vekja athygli á því að menn ættu að vera óhræddir við að veita byggðarlögum sem misst hafa aflaheimildir byggðakvóta. Við getum tekið dæmi eins og Grímsey. Ef þessar aflaheimildir hverfa úr eynni og verða fluttar suður eru fiskimiðin þar ekkert nýtt. Þess vegna gæti það farið vel saman til að ná út úr auðlindinni og stækka pottinn fyrir okkur öll, þjóðarauðinn, að veita einmitt þessu byggðarlagi heimild. Menn eiga að vera jákvæðir í garð þessa verkfæris.

Ég hefði auðvitað viljað hafa allt önnur verkfæri. Við getum tekið Bíldudal sem dæmi. Í stað þess að rétta þeim einhver kíló sem þeir mega ná upp úr hafinu, fyrir fram ákveðið magn, væri miklu nær að veita Bílddælingum rétt til að nýta Arnarfjörðinn, gefa þeim einfaldlega rétt til þess í stað þess að skammta þeim einhvern kvóta upp á örfá tonn, 20–60 tonn, sem síðan er slegist um. Mér finnst miklu eðlilegra að veita þessu byggðarlagi réttinn til að nýta fjörðinn í stað þess að fara í einhverjar æfingar sem rúmast kannski innan kerfisins, eins og að gefa þorskinum að éta og fanga hann síðan svo hann éti ekki rækjuna, að veita þorpinu einfaldlega rétt til að nýta þá auðlind sem Arnarfjörðurinn er eins og íbúunum þykir henta best. Mér finnst það miklu eðlilegra en að fara í þessar æfingar og veita einhverja tugi eða jafnvel 100 tonn til Bíldudals. Ég held að það næðist miklu skynsamlegri nýting út úr því.