145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með ágætum vilja gæti ég túlkað þetta andsvar þannig að ég eigi bara einfaldlega að þegja um þetta mál. (ÖJ: Nei.) Ekki hafa skoðun á því, (ÖJ: Nei.) vegna þess að það séu svo margir aðilar á móti þessu.

Ég hef hlustað af athygli á röksemdirnar gegn þessu og það er eitt og annað sem hefur vakið athygli mína, eins og til dæmis að menn beri saman við Danmörku, eins og hér hefur ítrekað verið gert, og geti þess ekki að aldurstakmarkið þar er 16 ár, 20 hér, og að það kunni til dæmis að vera veigamikill munur. Menn geta þess ekki að alls konar greiningaraðilar í þessum efnum leggja alveg að jöfnu leyfisskyldan rekstur og hins vegar rekstur á vegum ríkisins. Það er það sem við erum að ræða hér. Á ríkið að reka þessar verslanir eða eiga einkaaðilar að gera það?

Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru ýmsar vísbendingar um að það séu markaðsbrestir í verslun og þjónustu á Íslandi. Ég held að við þurfum að fara í aðgerðir til að laga það og auka samkeppni. Rökrétta viðbragðið sé ekki það að taka (Forseti hringir.) áfengi sérstökum tökum og hafa í einhverjum ríkisverslunum. Lögum frekar umhverfið. Mér sýnist reyndar margt benda til þess að einmitt í áfenginu séu litlir aðilar að gera góða hluti eins og til dæmis í bruggi á bjór.