146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[20:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það var alveg glatað að hlusta á þessar fréttir í morgun um rútubílstjórana. Ég vil taka fram að það er mjög víðtækt samráð á meðal opinberra stofnanna í þessu efni. Það má nefna tollinn, Vinnumálastofnun, Samgöngustofu, Vinnueftirlitið, skattinn o.s.frv., þar sem menn eru að skoða þetta mál sérstaklega, að mér skilst. Það er rétt að nefna að þessir erlendu aðilar falla ekki undir lögin um útsenda starfsmenn nema um sé að ræða notendafyrirtæki hér á landi sem kaupir af þeim þjónustu.

Vinna er farin af stað á vegum Evrópusambandsins þar sem verið er að skoða hvort og með hvaða hætti unnt sé að fella þessa starfsemi undir tilskipunina sem við ræðum, um útsenda starfsmenn. En ég undirstrika að íslensk stjórnvöld eru mjög meðvituð um þetta. Ég vil segja, ef hægt er að nota það orðatiltæki, að hæstv. félagsmálaráðherra er með puttann á púlsinum þegar kemur að þessu. Það verður fylgst mjög gaumgæfilega með þessu og stofnanir samhæfðar (Forseti hringir.) til þess að koma í veg fyrir eitthvert svona rugl.