150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[17:40]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Svo að það sé alveg skýrt, hvað varðar vilja Framsóknarmanna, þá vilja menn fyrst og fremst hafa flugvöllinn í Vatnsmýri, við skulum alveg hafa það á hreinu. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni varðandi formann flokksins, hæstv. samgönguráðherra, þegar hann undirritaði þetta samkomulag við borgarstjóra, að fyrst og fremst var verið að tryggja næstu 20 árin a.m.k. Fram hefur komið í umræðunni fyrr í dag að menn greinir verulega á, það eru öfl innan borgarinnar sem vilja vissulega að flugvöllurinn fari í burtu. Menn hafa líka talað um skipulagsvaldið og þess háttar. En það er mjög mikilvægt að hafa það alveg á hreinu í umræðunni að með þessu samkomulagi verður flugvöllurinn hér alla vega næstu 20 árin, hvað svo sem gerist í Hvassahrauni eða hvernig það verður nú allt saman. Sú tillaga sem við fjöllum um hér um þjóðaratkvæðagreiðslu gerir að mínu mati ekkert annað en að tryggja það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að það samkomulag sem var gert hafi verið ágætt skref í því að tryggja að völlurinn verði hér áfram því að með því samkomulagi er líka opnað á að menn fari í framkvæmdir og uppbyggingu á mannvirkjum á flugvallarsvæðinu.