151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, fyrir frumkvæðið, þetta er mikilvæg umræða. Samkvæmt skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um ákominn heilaskaða frá árinu 2018 er áætlað, eins og fram hefur komið hér, að um 2.000 manns á ári hljóti heilaskaða og að 200–300 manns séu með varanlega fötlun eftir slíkan heilaskaða og þurfi þar af leiðandi á langtímaendurhæfingu að ræða. Ekki er um að ræða heilaskaða vegna sjúkdóma á borð við heilablóðfall, heldur einungis ákominn heilaskaða. Meiri hluti þeirra sem hljóta slíkan skaða á heila glímir við minnisvandamál, skerta dómgreind og hegðunarvanda en ekki endilega líkamlega fötlun. Þar liggur kannski hundurinn grafinn vegna þess að okkur er svolítið tamt að kljást fyrst og fremst við slík viðfangsefni í kerfinu okkar. En þótt þessi fötlun sjáist ekki utan á fólki er hún ekki síður alvarleg. Hún veldur því að fólk getur ekki unnið, getur ekki verið í námi. Það einangrast félagslega vegna þess að vina- og fjölskyldubönd slitna. Síðan vitum við líka, tölur að utan hafa sýnt það, að helmingur fanga er með heilaskaða og um 70% þeirra hafa hlotið skaðann áður en þau brjóta af sér í fyrsta skipti. Erlendar rannsóknir sýna líka að um helmingur heimilislausra einstaklinga er með heilaskaða og er engin ástæða til að ætla að hlutföllin séu allt önnur hér á landi vegna þess að við höfum ekki byggt upp sérhæfða endurhæfingu til langs tíma fyrir þetta fólk.

Enn sem komið er virðast fáir meðvitaðir um þann mikla árangur sem hægt er að ná eftir heilaskaða með réttri endurhæfingu. Ég ætla að vísa hér í svar frá félagsmálaráðuneytinu við fyrirspurn minni fyrr í vetur, með leyfi forseta:

„Til þess að þjónustan við fólk með hegðunarvanda eftir heilaskaða verði markvissari er ljóst að ráðast þarf í ítarlega kortlagningu á stöðu þess og uppbyggingu frekari þekkingar og reynslu innan félagsþjónustunnar í samvinnu við önnur þjónustukerfi.“

Þetta er mikilvægt og þess vegna er þessi umræða hér mjög mikilvæg og skilar (Forseti hringir.) vonandi sínu í að þessi mál horfi til betri vegar mjög fljótlega. Ég ætla að koma betur inn á þau úrræði sem í boði eru, vonandi í næstu ræðu.