151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í bráðafasa eftir ákominn heilaskaða fer endurhæfingin fram á sjúkrahúsum en eftir að bráðafasanum lýkur taka ýmis og fjölbreytt úrræði við í endurhæfingunni. Þegar um er að ræða einstaklinga sem glíma við hegðunarvanda eftir slíkan ákominn heilaskaða skiptist það nokkuð jafnt hvort einstaklingar þurfa á úrræðum að halda sem heyra undir félagslega kerfið eða félagsmálaráðuneytið eða heilbrigðisráðuneytið. Mögulega er það hluti af flækjustiginu sem þessi málaflokkur virðist hafa fest í. Í samanburðarlöndum Íslands hefur atferlistengd taugaendurhæfing fyrir fólk sem er með ákominn heilaskaða og hegðunarvanda í kjölfarið verið veitt í nokkra áratugi og niðurstöður rannsókna á gagnsemi slíkrar endurhæfingar benda til þess að atferlistengd taugaendurhæfing sé árangursrík og gagnreynd endurhæfingarmeðferð við hegðunarvanda eftir heilaskaða. Við höfum ekki boðið upp á slíka endurhæfingu enn þá hér á landi. Það er hins vegar svo að hópur fagfólks hefur stofnað endurhæfingarsetur sem sérhæfir sig í þessari þjónustu og þar á meðal eru helstu sérfræðingar okkar hér á landi í endurhæfingu eftir heilaskaða.

Helsta ástæðan, eftir því sem ég kemst næst, fyrir því að ekki hefur verið hægt að veita þessa þjónustu er að ríki og sveitarfélög eru að ráða með sér hvernig haga skuli skiptingu kostnaðar. Það er ekkert óeðlilegt þegar um er að ræða nýja og dýra þjónustu en það er mikilvægt að það verði sem fyrst höggvið á þann hnút. Mikilvægt innlegg í þá vinnu gæti verið ítarleg kostnaðar- og ábatagreining þar sem fleiri þættir eru teknir til skoðunar en einungis útlagður kostnaður sem liggur fyrir að þessi þjónusta krefst. Við ræðum einmitt þessa hluti mjög oft. En mér er til efs að víðar í samfélaginu sé að finna skýrari dæmi um annars vegar fjárhagslegan ávinning sem (Forseti hringir.) hlytist af því að grípa strax inn í þegar fólk hlýtur skaða af þessu tagi og hins vegar þann ávinning sem lýtur að vellíðan og lífsgæðum fólks (Forseti hringir.) sem hefur orðið fyrir þessum skaða og aðstandendur þeirra.