152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í greinargerðinni frá hæstv. fjármálaráðherra, í grein 6.5, er talað um hæfni virkra fjárfesta. Það er tiltekið hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla og ráðherra nefndi það hér áðan. Og maður spyr um hæfni þeirra sem eru ekki kallaðir virkir sem eru undir 10%. Hvaða skilyrði þurftu þeir að uppfylla? Var hringt í fangann sem ráðherra nefndi hér áðan? Fékk hann að koma í þetta lokaða útboð eða þurfti hann bara að kaupa á markaði? Hann talar núna bara um hæfa fjárfesta. Hverjir voru hæfir fjárfestar sem voru valdir inn í þetta til viðbótar við virka fjárfesta? Ég átta mig ekki á þessu. Hverjir voru hæfir í þessu tilfelli? Ég er bara rasandi. Það er eitt í dag og annað á morgun. Ég fæ ekki annað séð en að þessi ríkisstjórn sé bara að sýna íslenskum almenningi afturendann og það er gert í boði Vinstri grænna.