Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Indriði Ingi Stefánsson spyr hér um sjálfstæði gæðastjórans og þess embættis sem verður skipað sem er nokkurs konar innra eftirlit í störfum lögreglu. Ég held að það sé nú tryggt, m.a. með skipun hans. Þetta er embætti sem skipað verður af ráðherra sem gefur vísbendingu um ákveðið sjálfstæði og öll umgjörðin býr að því að embættið sé sjálfstætt. Það eru líka tilkynningarskyldur frá lögregluembættum inn til þessa nýja embættis og síðan samskipti við eftirlitsnefndina sem hefur enn ríkara hlutverk en hefur verið og við erum að styrkja verulega þá starfsemi. Reynslan hefur einmitt sýnt okkur eftir að þessi nefnd kom til að hún hefur haft meira á sinni könnu en menn kannski reiknuðu með og þess vegna er mjög tímabært að efla hana og það er gert bæði með því að fjölga starfsmönnum, fjölga í nefndinni og eins að gera formannshlutverkið að föstu starfi. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni þegar hann spyr um einstaklinga sem að ósekju hafa verið til rannsóknar og könnunar og er þá tilkynnt um að þeir geti farið fram á það að gögnum um þá sé eytt. Mér finnst það hljóma mjög eðlilega í þessu öllu og get tekið undir þau sjónarmið sem liggja þar að baki út frá persónuvernd. Svo getur náttúrlega verið að þau gögn séu hluti af einhverjum stærri bunka rannsóknargagna sem mögulega þyrfti að halda í. En þetta er eitthvað sem nefndin ætti að skoða og væru auðvitað eðlilegar spurningar sem kæmu fram á þeim vettvangi.