Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

raforkulög.

536. mál
[19:03]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar við mínu andsvari. Ég sé það líka við nánari skoðun þegar maður fer að reyna að bora sig örlítið ofan í, afsakið orðbragðið, virðulegi forseti, og skoða nánar efnisatriði þessa frumvarps að við vinnslu þess var eðli málsins samkvæmt haft samráð við valda aðila. Ég hnýt hér um breytingu sem náttúruverndarsamtökin Landvernd draga fram en þau telja, samkvæmt því sem stendur í greinargerð með frumvarpinu, breytinguna nauðsynlega til að fyrirbyggja að almennir notendur beri aukinn kostnað vegna tengingar einstakra notenda sem fylgir mikill stofnkostnaður og umsvif við dreifikerfið. Er það vel ef það er niðurstaðan þegar upp er staðið, nái þetta frumvarp fram að ganga og verða að lögum, því að þetta er eðli málsins samkvæmt umræða sem á fullkomlega rétt á sér. Við höfum margoft tekið hana með ýmsum hætti, þ.e. þegar viðbætur við kerfið og/eða einstaka tengipunktar hafa ekki bara ákveðnar niðurstöður í för með sér, að hægt er að sækja orku á nýja staði, heldur líka aukinn kostnað og/eða ekki réttmætan kostnað vegna þessara auknu tenginga hjá þeim sem ráðast í framkvæmdina. Auðvitað skoðar hv. atvinnuveganefnd þetta mál betur við þinglega meðferð en við fyrstu sýn ber ekki að skilja annað en að þetta sé frekari skerping og skýring á því sem féll úr við meðferð málsins á fyrri stigum.