132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg. Það er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur, fyrir landsmenn alla, að ná vöruverði niður og ekki síst launafólk á lágum launum.

Ég tel að við þurfum að hafa þrennt í huga. Við eigum ekki að einblína bara á vöruverðið, við eigum að horfa til hollustu- og manneldissjónarmiða. Þannig væri ekki eftirsóknarvert að flytja inn til landsins ruslmat á lágu verði. Í öðru lagi á að horfa til innlendra hagsmuna, byggðasjónarmiða, hagsmuna bændastéttarinnar og þeirra þúsunda sem starfa í íslenskri matvælaframleiðslu. Þetta tengist fyrra atriðinu, manneldis- og hollustuháttum, vegna þess að íslensk landbúnaðarframleiðsla er mjög heilnæm og góð.

Í þriðja lagi er mikilvægt að horfa heildstætt á málin. Hér vísa ég í mjög vandaða vinnu Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtakanna, en hún hefur greint matvælamarkaðinn vel, skiptingu á milli innfluttrar vöru og innlendrar framleiðslu og hvernig verðþróunin hefur orðið hér á landi. Þá hefur komið fram í þessum rannsóknum að innflutt vara sem er ekki með tolla, korn og brauð, er 67% dýrari hér en í Evrópu. Hvernig stendur á þessu? Hér er ekki tollunum til að dreifa. Ef við værum með sömu tolla og Evrópusambandið á sykri, sem er tollfrjáls hingað, væri sykurinn hér miklu dýrari.

Við eigum að forðast alhæfingar og ég tek undir með hv. frummælanda, Ástu Möller, að það er ekkert eitt sem veldur hér hærra vöruverði. Við eigum að horfa á alla þættina, samþjöppun hér á matvælamarkaði, vissulega tollana og við eigum að horfa til neytendaverndar. Ég fagna því fyrir mitt leyti að sett hafi verið niður nefnd (Forseti hringir.) á vegum forsætisráðuneytisins til þess að fara í saumana á þessu máli. Ég bind vonir við að eitthvað vitrænt komi út úr þeirri vinnu.