138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja það að mér er alveg gjörsamlega misboðið að hafa upplifað það sem gerðist hér í gær og það sem er að gerast hér í dag. Vinnubrögðin hjá meiri hlutanum eru til háborinnar skammar og það kom fram í orðum hv. þm. Guðbjartar Hannessonar að hann viðurkenndi nánast að ríkisstjórnin hefði gert mistök í því hvernig hún hefur haldið á þessu Icesave-máli frá upphafi til enda, þótt hann hafi svo sem sagt að það væri lítið sem við gætum gert núna.

Ég vil hins vegar vísa til þess að það eru lög hér í landinu, það er stjórnarskrá í gildi á Íslandi og Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur hans ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, framkvæmir nokkuð eða veldur því að nokkuð sé framkvæmt sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Ég tel að það sé (Forseti hringir.) nánast kominn tími til þess að við (Forseti hringir.) íhugum alvarlega hvort við þurfum að fara að kæra núverandi ráðherra fyrir landsdóm.