144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

513. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri líka áhugavert að bæta við það sem hv. þingmaður Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi hér á undan, að sjá líka kynjaskiptingu eftir því hvað er greitt fyrir nefndasetur svo ég nefni það hér.

Þó að hæstv. ráðherra hafi verið bjargað fyrir horn eftir þessi brot á jafnréttislögum með því að einn tilnefningaraðili skipti út fulltrúa er málið ekki úr sögunni að mínu mati vegna þess að það þarf að fara í gegnum verklag ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar þeir skipa í stjórnir, nefndir og ráð á vegum hins opinbera. Þeim ber að fylgja lögum. Það var ekki gert í þessu tilfelli. Þeim ber að fá frá öllum tilnefningaraðilum karl og konu og raða síðan stjórninni, nefndinni eða starfshópnum þannig saman að kynjahlutföllin séu jöfn.

Í þessu tilfelli er hæstv. ráðherra bjargað fyrir horn. En það breytir ekki því að verklagið var ónýtt frá upphafi og leiddi til þeirrar niðurstöðu að lög voru brotin og það er það sem mér finnst alvarlegt í þessu máli. Ég verð þess vegna að kalla eftir því að hæstv. ráðherra sem fer fyrir málaflokknum hafi á því skoðun hvernig samráðherrar hennar umgangast jafnréttislög. Við hljótum að geta fengið skoðun frá hæstv. ráðherra á því og það er það sem ég kalla eftir.