151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

sóttvarnir.

[14:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því í hvað hv. þingmaður er að vísa. Eins og hv. þingmaður veit er stefnt að því 1. maí að taka upp litakóðunarkerfi á landamærum. Það þýðir að það verður óbreytt fyrirkomulag, tvöföld skimun og sóttkví fyrir þá sem eru að koma frá svokölluðum rauðum löndum, en það verður breytt fyrirkomulag fyrir þá sem eru frá grænum og gulum löndum, þ.e. þeim ber að skila neikvæðu PCR-prófi, ekki meira en 72 tíma gömlu, og síðan fara í skimun á landamærum. Þetta fyrirkomulag, eins og hv. þingmaður taldi mig hafa sagt, byggir vissulega á okkar íslensku leið sem hefur gefist gríðarlega vel á landamærum. Hún hefur gefist gríðarlega vel og vakið athygli víða nákvæmlega fyrir hve vel hún hefur tekist. Hafi ég sagt að lítil breyting yrði á þá var ég að vitna til þess, ef hv. þingmaður er að vitna til viðtals við mig, að eina landið núna í Evrópu sem myndi teljast grænt eða gult er Noregur, öll önnur lönd er á appelsínugulu eða rauðu. Ímyndum okkur að við værum komin á þann stað að við værum að fara að taka þetta kerfi upp, þá væri breytingin auðvitað ekki gríðarlega mikil ef örfá lönd eru á grænu eða gulu.

Ég treysti því að hv. þingmaður skilji þetta því að þó að kerfið byggi á litakóðunarkerfinu þá hangir auðvitað það sem gerist á landamærum á því hvernig faraldurinn þróast í öðrum löndum. Um það snýst þetta kerfi sem mér finnst einmitt byggja annars vegar á því alþjóðlega samstarfi sem við erum í og hins vegar á því að við erum að nýta þá góðu reynslu sem við höfum haft af þessu fyrirkomulagi á landamærum, sem er ótrúlega öruggt og hefur skilað miklum árangri og verið töluvert góð samfella í ólíkt mjög mörgum öðrum löndum í Evrópu sem hafa verið að taka ákvarðanir viku fram í tímann jafnvel um landamæraaðgerðir.

Hvað varðar bólusetningar ætla ég að koma að því í seinna svari því að tíminn hleypur frá mér. En eins og hv. þingmaður þekkir líklega þá höfum við birt líkan um það hvernig dregur (Forseti hringir.) úr áhættu við bólusetningu eldri hópa. Ég kem að því á eftir.