151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, enda er hún eitt af þeim málum sem lengi hefur verið tekist á um í íslensku samfélagi, mismikið þó því að hitinn í kalda stríðinu hefur sem betur fer minnkað.

Á Ísland að vera aðili að Atlantshafsbandalaginu? er spurt hér af málshefjanda, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Þingmaðurinn hlýtur að svara þessari spurningu játandi þar sem hann styður stjórnarsáttmála um að í öryggis- og þróunarmálum fylgjum við þjóðaröryggisstefnu Íslands, sem kveður á um að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu. Þannig að kannski hefði spurningin átti að vera: Styðjum við þjóðaröryggisstefnu Íslands? En hv. málshefjandi er á móti veru Íslands í NATO, eins og við mörg sem styðjum ekki veru Íslands í NATO en lútum vilja lýðræðislega kjörins meiri hluta, hvort sem er hér á þinginu eða innan stjórnmálaflokka. Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu, hvort sem okkur líkar betur eða verr og skoðanir eru skiptar innan stjórnmálaflokka og í samfélaginu öllu. Það þekki ég nú vel. Það mátti líka sjá í niðurstöðum könnunar sem gerð var fyrir utanríkisráðuneytið vorið 2019, um viðhorf fólks til NATO, þar sem fram kom að innan við helmingur styður aðild Íslands og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, eða 48,9%, en rétt innan við 20% eru andvíg veru okkar þar. Þannig að stór hluti landsmanna er ekki með skýra skoðun á veru okkar í bandalaginu og það er vert að velta því fyrir sér hvort það sé slæmt eða gott.

Herra forseti. Talandi um fjölbreyttar skoðanir. Það rúmast mjög breiðar skoðanir innan Samfylkingarinnar. Þar má finna sterk sjónarmið sem tala fyrir því að endurskoða veru Íslands í NATO, en líka sterk sjónarmið um áframhaldandi veru okkar þar og þær skoðanir hafa orðið ofan á. En þrátt fyrir vilja meiri hlutans hér á þingi verðum við samt að vera tilbúin til þess að geta gagnrýnt framferði einstakra bandalagsþjóða eða jafnvel sjálft bandalagið. Og það er mín skoðun að við eigum að spyrja okkur hvort (Forseti hringir.) þátttaka í alþjóðlegu samstarfi um varnir þýði sjálfkrafa að (Forseti hringir.) það tákni hernaðarlega viðveru Bandaríkjanna hér sem tengist ekki NATO.

Ég hefði viljað segja miklu meira, herra forseti, en bjallan hringir og ég ætla þá að fá að eiga þessa umræðu inni.