131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.

290. mál
[13:30]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um málið og fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa því.

Ég tel að hér sé í rauninni um tvíþætt mál að ræða. Í fyrsta lagi hvort lagaumhverfið sé hreint og í öðru lagi hvort tekin verði ákvörðun um að taka þarna upp greiðsluþátttöku. Ég tel að það þurfi að vera alveg ljóst að það sé kleift lagalega. Við erum að vinna að endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu o.s.frv. og lagafrumvarp um græðara er til umfjöllunar í Alþingi. Það er náttúrlega einboðið, enda kom það fram í svari mínu, að þetta mál er á dagskrá samninganefndarinnar og er ekki búið að leggja það fyrir róða þar þannig að við höldum áfram að ræða þar um þessa skilgreiningu.

Ég ætla mér ekki þá dul að fara að deila við hv. þingmenn um það hvort þetta er lýtaaðgerð eða fegrunaraðgerð. Sú skilgreining hefur verið uppi en þetta er atriði sem sjálfsagt er að sé í umræðu hjá fagfólki og þær skilgreiningar sem menn hafa. Málið er á dagskrá áfram en ég get ekki lofað neinum dagsetningum í þessu efni, ég verð að segja það í fullri einlægni, en ég tel að það sé áríðandi að við höldum áfram að meðhöndla í samninganefndinni hvaða möguleikar eru þar uppi.